31. mars 2005

Fæst orð

hafa minnsta ábyrgð. Það var ekki alveg timabært að lýsa yfir breytingum í atvinnumálum. Sú sem ég byrjaði í síðast var sú sem ég hætti í fyrst.
Þetta var nú bara nokkuð sniðugur morgun!
En það er nú samt törn framundan og ég er svoooooo löt.

30. mars 2005

Af vinnumálum

Ég fór í atvinnuviðtal fyrir páskana, fékk ekki vinnuna og átti rólega og góða páska sem ég eyddi í að ganga og gera ekkert þess á milli. Fékk svo upphringingu í gær og var spurð hvort ég væri til í að tala aftur við liðið út af vinnunni. Ég sló til og hugsaði með mér að það sakaði ekki að athuga hvað væri í gangi. Fór í viðtal rúmlega fimm og var búin að ráða mig í vinnu hálftíma seinna. Mætti í morgun.
Eins gott að ég fékk ekki að vita þetta fyrir páska, þá hefði ég unnið alla frídagana.
Sé fram á hrikalega vinnutörn meðan ég losa mig við eins og einn vinnustað í staðinn.
Ætli ég geti virkilega ekki gert allt sem mig langar til og unnið 20 tíma á sólahring líka?
Annars væri ágætt að koma reglu á hlutina og vinna bara frá átta til fimm þó ég þyrfti að skipta um vinnustað í hádeginu. Það er á áætlun en ætli ég verði ekki í þremur vinnum út þetta ár. (EKKI FJÓRUM!!)

29. mars 2005

Páskaerror

Error og ég nenni ekki að skrifa aftur það sem ég var búin að bulla hér.

26. mars 2005

Rigning og rok

Það er rigning og rok ég er tvístígandi. Á ég að fra út að labba eða á ég að vefja mig inn í sængina mína í stofusófanum með handavinnuna eða horfa á síðustu myndina í Hringadróttinssögu. Ég sá hana í bíó, sá þær reyndar allar þrjár á maraþonsýningu en á hana líka á DVD og ætlaði að hafa heimabíó eitthvert kvöldið (eða daginn). Þá man ég það krakkarnir panta fjölskyldubíó með þessari mynd þá svo það þarf að finna tíma sem hentar öllum.
Labbaði á Trölladyngu í gær, náðum að skokka þar upp undir kvöld og fukum svo niður rétt fyrir myrkur í gærkvöld. Lambafellsgjáin var sett á bið.
Átti svo að taka daginn í dag með trompi (og morgundaginn og mánudaginn) en... æ ég sé til.

25. mars 2005

Fráhvörf

Fráhvarfseinkennin eru eitthvað að lagast og ég farin að sætta mig við að vera í bænum um páskana. Ekki skrítið þó mér finnist öfugsnúið að komast ekki burt, það rifjaðist upp að ég hef ekki eytt páskunum í bænum í mörg ár. Síðustu páska var ég austur á landi og páskana áður í Prag og þar og þar áður ábyggilega fyrir austan.
Þá er bara að vera jákvæð og nota þessa frídaga í að gera allt það sem mig langar til að gera og kem aldrei í verk.
Gærdagurinn fór í að gera efri hæðina íbúðarhæfa og sonurinn segist ætla að sjá um sinn hlut af neðri hæðinni en ég hef einhverjar smá efasemdir um að hann standi við það. Hann ætlaði að mála kjallarann hjá kærustunni í dag svo hún (þau) geti flutt niður fljótlega. Allstaðar ætlar hann að vera í kjallaranum þetta grey. Hann getur þá sungið ,,í kjallaranu, í kjallaranum hann...". Framhaldið af textanum er víst öfugmæli í þessu tilfelli.
Svo væri ráð að fara og labba eitthvað af öllum þessum leiðum hérna í nágrenninu sem mig langar til að skoða. Sjúkarliðinn var með einhver plön um að ganga með mér en hún er að drepa sig á vinnu og ef hún ætlar að stunda einhverja útiveru er sennilega eina ráðið að standa við að gerast útigangsmaður. Sem nota bene minnir mig á að lögreglan kom með ,,útigangsmann" á heimili hjá hálfáttræðum manni sem ég þekki og hann kunni ekki við að úthýsa ,,útigangsmanninum". Auðvitað átti hann bara heima á vinnustaðnum hjá sjúkraliðanum og hvergi annarstaðar og hefði átt að keyra hann beint þangað en svona er ,,kerfið". Það bitnar helst á þeim sem eiga erfiðast með að bera hönd fyrir höfuð sér.
Ætli ég fari ekki bara og athugi hvernig ástandið er.

Svo finnst mér eiginlega að ég ætti að vinna aðeins. Ææi.

24. mars 2005

Páskafrí i bænum

Mér hundleiðist, ég komst ekki burt úr bænum um páskana. Auðvitað hefði ég getað verið kærulaus og notað kreditkortið til að fljúga eitthvað út í buskann en ég ákvað að vera ábyrg og geyma kortið í mánuð.
Langaði í bíó í gær og hringdi út um allrar trissur til að fá einhvern með mér. Allir voru eitthvað annað að gera en að koma í bíó og ég nennti ekki ein. Er búin að liggja í sjálfsvorkun og vesöld í staðin fyrri að sópa út ryki og kattarhárum. Tölvunarfræðingurinn virðist vera búin að finna sinn tilgang í lífinu og hann er ekki að vakna snemma þá daga sem hún á frí og gera allt sem hún ætlaði að gera ,,á morgun". Í því felst frekar að fara að sofa ,,snemma" á morgnana.
Sem sagt ég á bágt og mikið af því en af því nágrannarnir virðast flestir vera að heiman er ég að hugsa um að setja græjurnar í botn og finna tiltektartaktinn. Gæti orðið erfitt þegar ég finn hvergi ryksugumúsíkina mína, diskurinn horfinn. Það er þess vegna sem ég hef ekki ryksugað í marga mánuði. Neyðist til þess núna svo ég finni skóna mína þarna undir hroðanum.
Mikið rosalega er illa farið með tímann að eyða honum í að láta sér leiðast.

23. mars 2005

Fiskveiðar

Hvur fjandinn er kominn hér inn í niðursuðukrukku.


Það hreyfist....


Gæti verið ætilegt


Er ómögulegt að ná þessar sardínu?


Prófum frá þessari hlið...


og kíkjum undir botninn....


Gefst upp!!


Ég skal passa að hann sleppi ekki...ZZZZZZz

21. mars 2005

Sunnudagurinn

Það var vor í lofti í gær, 11 stiga hiti og hlýr austanvindur. Við vinkonurnar með Sponsið sem er alveg að verða tólf, fórum í göngutúr i Elliðaárdalnum og loksins þegar við tímdum að fara heim vorum við með fangið fullt af trjágreinum af ýmsum gerðum og stærðum sem átti að setja í vatn og láta laufgast fram að páskum. Ég efast nú reyndar um að birkið nái að laufgast á viku en kannski öspin og víðirinn er komin með mjúka knúppa sem er nóg páskaskraut fyrir mig..
Ég er líka hamingjusamur eigandi Hitachi Koki DV16v höggborvélar með 16mm málmpatrónu. Loksins!
Börnin mín eru einstaklega vel lukkaðir einstaklingar og gáfu mér ekki hrukkukrem heldur BORVÉL í afmælisgjöf. Ég hlýt að hafa gert eitthvað rétt í uppeldinu. Og ekkert hobbýdót segir sonurinn sem er búinn að fá sig fullsaddan á liðinu sem kaupir pínulitlar hobbývélar á tilboðum, eyðileggur þær á nokkrum dögum í hörku vinnu og kemur svo og nöldrar og tuðar yfir endingunni. ,,Ætlar liðið aldrei að átta síg á að það fær það sem það borgar fyrir




Tveir vinnustaðir í borginni voru í uppnámi yfir þessum gjafakaupum. Vinnuélagi Tölvunarfræðingsins spurði hvort hún ætlaði virkilega að ,,láta borvél í hendurnar á KONU” og það ,,heima hjá þér”. Hann sá sennilega fyrir sér húsgögn og veggi gataða eins og sigti eftir hamfarirnar þega ég setti vélina af stað. Vinnufélagar sonarins sögðu ,,handa MÖMMU þinni" og horfðu á hann með svip sem sagði að nú hefðu þeir fengið endanlega staðfestinu á að hann væri ekki eins og fólk er flest. Ætli þau segi nokkrum manni frá því þegar þau kaupa hjólsögina handa mér.
Svo var humarveisla hjá Sjúkraliðanum og ég sá eftir því að hafa þrengt kjólinn minn. Ummmm. Gleymdi samt að hafa hvítvínið með mér en það má alltaf bjargast við Pepsi Max. Rjómalíkjör og göngukort af Hengilsvæðinu fylgdu svo með humarveislunni. Sennilega veit Sjúkraliðinn hvað mér kemur best!
Við gengum svo langar leiðir eftir kortinu á eldhúsboðrðinu hjá henni í gærkvöld en hvað við verðum duglegar að ganga á Hengilinn, Trölladyngju, Grænudyngju, Keili, Geitafell, skoða Arnarkerið, Krýsuvíkurbergið, Selatanga, Herdísarvík, Draugatjarnir, Lambafellsgjána og hvað það var nú allt sem við ákváðum að skoða í vikulegum gönguferðum sem eiga að taka við af saumaklúbbnum þegar daginn fer að lengja meira, það kemur í ljós!
Ég átti góðan dag í gær.

PS.
Takk fyrir kveðjurnar.

20. mars 2005

Upp er runnin..

afmælisdagur og mér er boðið í mat í kvöld. Dóttirin þessi sem er orðin eldri en tólf ára segir að þetta sé svindl og hummar bara þegar ég segi henni að hún taki mig aldrei með í matarboð hjá vinkonum sínum.
Svo pantaði ég samfylgd í göngutúr í afmælisgjöf líka og vonandi verður einhver tilbúin til að gefa mér hana.
Hvað viðvíkur hæfileikum til góðrar umgengni þá er það víst ekki eitthvað sem kemur í ljós hjá okkur um tólf ára aldurinn eins og það að skilja kaldhæðni og eitthvað fleira sem kemur á þvi aldursskeiði. Þetta snýst um að hafa lært að taka ábyrgð á sjálfum sér og safna ekki upp löngum verkefnalistum og ófrágengnu dóti hist og her. Auðvitað er þetta líka eitthvað sem átti að kenna manni í uppeldinu og af því það virðist hafa gleymst dreg ég mömmu til ábyrgðar.
Dóttirin dregur mig svo sjálfsagt til ábyrgðar á sínum vanköntum, nema þetta sér genagalli því það vantaði ekki að pabbi hennar legði áherslu á umgengnisþáttinn meðan hann var að reyna að ala mig og börnin upp. En þetta var vonlaust og á endanum gafst maðurinn upp örþreyttur eftir baráttu við ósigrandi öfl og hefur ekki borði sitt barr síðan.
Dóttir hans er ekki búin að átta sig á hvað þessi barátta er vonlaus enda ung og bjartsýn ennþá og tilbúin í baráttu við vindmyllur.

19. mars 2005

Eldri en 12 ára

Ég ætlaði að vinna í dag og gerði það. Slugsaðist samt ekki í vinnu fyrr en seint og síðarmeir, taldi sjálfri mér trú um að ég væri ekki við góða heilsu og hékk yfir engu langt fram yfir hádegi. Kom svo ekki heim fyrr en dóttirin var búin að elda handa mér kvöldmatinn. Það kostaði auðvitað heilmiklar fortölur að fá hana til að axla þá ábyrgð en það tókst fyrir rest og maturinn var fínn. Það var ekki málið heldur það að áður en ég komst inn úr forstofunni og meira að segja áður en ég komst úr skónum, náði ekki einu sinni að renna niður rennilásnum á öðrum þeirra áður en lesturinn hófst.
,,Mamma hvað ertu eiginlega gömul". (Hún ætti nú að fara nokkuð nærri um það ætli ég sé ekki ennþá rúmum 20 árum eldri en hún.)
,,Sko hér búum við bara tvær og erum báðar eldri en 12 ára" (rétt hjá henni, hún hefur alltaf verið nokkuð skýr)
,,Ættum við þá ekki að geta gengið þannig um að það þurfi ekki að eyða mörgum tímum í viku í að taka til eftir okkur" (Mér varð eitthvað svarafátt.... )

Svo mörg voru þau orð og ég fékk að fara úr skónum þegar ég var búin að lofa því hátt og hátíðlega að raða þeim í skóhilluna jafnóðum. Nú læðist ég um á tánum og geng frá eftir mig jafn óðum.
Kötturinn mælti með flutningum enda nennir hann aldrei að taka til eftir sig.

Uppfinning andskotans

Er farin að hallast að þvi að Bloggið sé uppfinning andskotans. Hér sit ég með nefið í tölvuskjánum og les bloggsíður út og suður, athuga meira að segja hvað afkvæmið hefur sagt nýlega og tíminn flýgur frá mér. Ég sem æltaði að klára eitthvað af listanum endalausa í kvöld.
Kíkti annars á skattaskýrsluna áðan og þetta er náttlega hrein snilld. Bara smella á senda og skattaskýrslan frá.

18. mars 2005

Það

er aðeins of mikið að gera.

15. mars 2005

Bókaútsala

Ég missti af bókaútsölunni í Perlunni en lenti á bókamarkað hjá Eddu bókaútgáfu og sá lítði annað en rusl þar. Fann samt Ljóðasafn Hannesar Sigfússonar og keypti það.
Ljóðabókin Dymbilvaka eftir Hannes kom út 1949 og af þvi það líður að Dymbilviku .....


I

Ég sem fæ ekki sofið...

Bleikum lit
bundin er dögun hver og dökkum kili

Draugsleg er skíman blind og bak við allt
blóðlausir skuggar flökta á gráu þili

Andlit sem hylst að hálfu í dimmum skugga
hattur sem drúpir, hönd sem hvergi leitar
handfangs - og vör sem einskis framar spyr

Og úti stendur einn við luktar dyr.

________________

Og úr Imbrudögum
_________________

þann dag bárum við þá á milli okkar undan brimi líkt og sjóþunga farmannspoka, þreyttir og önugir vegna þess hvað þeir voru þungir. Þeir voru svo margir að við fengum ekki fangstað á dauðanum. Við horfðumst i augu við þá án þess að hvika, jafn sljóeygir og þeir, jafn brostnum augum.
Þeir spurðu engra tíðinda og sögðu fátt.

14. mars 2005

Frostbitin

Hafrún er forstbitin í andlitinu í dag. Rauðir bólguþrimlar þar sem lambhúshettan hlífði ekki í gær þegar við löbbuðum frá Reykjalundi upp á einhverja hæð þar fyrir ofan, hæð sem Mosfellingar kalla fjall en brottfluttur Austfirðingur kalla hól. Ekki það að hóllinn væri ekki nógu hár fyrir mig, ég hafði það ekki af að paufast upp á toppinn á heldur hélt mig í hlíðinni fyrir neðan hann og afsakaði mig með þvi að það væri ekki hægt að sjá úttsýnið fyrir táraflóði sem myndast þegar maður horfir í rokið í 10 stiga frosti. Löbbuðum svo niður að Varmánni þar sem aukafötin sem ég var með, aldrei þessu vant, komu í góðar þarfir þegar ein úr fjölþjóðlega hópnum lenti niður um krap og rennblotnaði í fæturnar. Eftir það lá leiðin í krókum niður að Reykjalundi aftur.
Sængin mín dugði ekki til að koma il í tærnar eftir að ég kom heim og ég var með kuldahroll í kroppnum langt fram eftir kvöldi. Það kennir mér að fara sjálf í ullarsokkana í staðin fyrir að klæða aðra í þá.
Sat svo við nýviðgerða saumavélina í gær og gerði við, stytti og þrengdi fram undir miðnætti, án þess að ná að klára. Ég þarf að fara að kenna dóttirinni á saumavél. Það er varla flóknara að skipta um rennilás en forrita ,,mótakerfi"?
Eða ekki!

Misjafnlega frosnir göngugarpar!

12. mars 2005

Langaði ...

..eiginlega til að gera eitthvað af mér í kvöld en er orðin syfjuð og löt eftir vinnudaginn og aukavinnudaginn(kvöld). Ætla í göngu á morgun svo það er best að taka því rólega í kvöld.
Allri sem ætla með eru beðnir að fara að sofa á skikkanlegum tíma þe. fyrir sex í fyrramálið.

Veislumatur í nestisboxinu

60 gr. rækjur
70 gr. kotasæla
1/2 mangó brytjað smátt

Blandað saman með sítrónusafa, graslaukur eða öðru krydd eftir smekk, Salat og tómatar með og þá er veisla í vinnunni.

Tími

Ég er að leita mér að aukaklukkutímum í sólahringinn en finn þá ekki. Ætli það megi stjórna þessu með betri skipulagningu og forgangsröðun?
Þá dettur þetta blogg út.
Best að vinna!

10. mars 2005

Sifjuð

Ég er búin að vera svo sifjuð í allt kvöld. Einhverntíma hefði verið sagt að það væri einhver að sækja að mér. Það kom reyndar maður í heimsókn en ég er jafn sifjuð og ég var áður en hann kom og fór.
Best að ég tala almennilega við koddann minn.

9. mars 2005

Af ferðum og myndun

Ég slysaðist inn hjá FÍ í gær og datt í hug að tékka á ferðinni minni á Hornstrandirnar. Hvort það væri fullbókað í ferðina eða hvort það væri útlit fyrir að hún yrði blásin af. Það kom í ljós að ég var bara ekkert bókuð í ferðina!
Ég lét leiðrétta það snarlega og borgaði svo staðfestingargjaldið fyrir tvo og hálfan þáttakanda í ferðina. Nú er orðið of seint að hætta við.
Fór svo í kvöld á myndasýningu og skoðaði myndir úr Húsavík og Breiðuvík og Herjólfsvík og fleiri og fleiri víkum og fjörðum fyrir austan. Mig langar í skálavörsluna í Breiðuvík í sumar, mig langar að labba á Glettinginn, í Brúnuvík, í Stórurð, Kækjuskörðin, út í Álftavík og ég veit ekki hvað og hvað. Finn ekki fyrir neinni ,,heimþrá" í Húsavíkurskálann sennilega af því veðrið var ekki alveg upp á sitt besta vikuna sem ég var þar og svo er auðvitað ekki eins fallegt í Húsavík og í Breiðuvík.
Að sitja einn með sjálfum sér í sólskini og logni uppi í Súluskarði og horfa á þokuna leggjast yfir láglendið svo fjöllin mynda eyjar upp úr þokunni allt um kring, það er gott veganesti inn í veturinn. Jafnvel til margra vetra.
Ég á fyrningar.

Hef verið að kíkja á heimasíðuna hjá Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs annað slagið til að athuga hvort það vanti ekki fólk í skálavörslun í Víkunum í sumar en þar er engin hreyfing hvorki auglýst eftir fólki eða ný ferðaáætlun. Það mætti halda að Austfirskir Ferðafélagar væru útdauð tegund! Helgi Arngríms hélt þó uppi merki Austfirðinga í kvöld þegar hann þuldi upp örnefni og lýsingar af sínum slóðum, með vel uppsetta myndasýningu og lét svo liðið syngja um Borgfirskar sumarnætur í lokin.
Það er ábyggilega enginn svikinn af ferðunum hans.

Myndir frá Galagapos og Amazon voru barasta ekki eins áhugaverðar og íslensku myndirnar en sumar myndirnar frá Galagapos hefðu eins getað verið teknar á Íslandi. Hraun og sjór er sjálfsagt svipað hvar í heiminum sem er, bara gróðurinn og dýralífið er ólíkt.

8. mars 2005

Froska......

Á laugardagskvöldið dró ég bók úr hillu til að lesa í fyrir frænku. Ég rakst á sögu um frosk. Froskaprinsessan heitir hún.
Magnað, ég hélt að froskar væru bara annað hvort froskar eða prinsar í álögum, mér hefur bara aldrei dottið í hug að froskar gætu verið prinsessur i álögum.
Kannski eru þá einhverjar prinsessur froskar í álögum!
Hugsa sér!

6. mars 2005

Göngugleði

Hafrún fer annað slagið í gönguferðir um nágrenni Reykjavíkur. Hittir þá stundum fólk sem kemur saman á sunnudagsmorgnum og labbar eftir efnum og aðstæðum um fjörur eða fjöll.
Þessir hópar eru misjafnir eins og gefur að skilja. Göngufólk er misjafnt, sumir rölta með nefið ofan í jörðinni til að skoða gróður, grjót og jarðveg. Aðrir setja hnakkann milli herðablaðanna og horfa til himins meðan þeir ganga (horfa að vísu niður fyrir tærnar á sér annað slagið, annars dyttu þeir fljótlega). Sumir staldra oft við og skoða kennileiti og landslagið, aðrir finna sér upphafs og endapunkta göngunnar og stika á milli án þess að stoppa eða líta í kringum sig. Þeir einstaklingar eru langt á undan meginhópnum og því miður er gangan oft löguð að þeim. Hinir fá ekki eða gefa sér ekki tíma til að stoppa og njóta útiverunnar, það lenda allri ósjálfrátt í þessu kapphlaupi. Ég á oft von á að sjá stimpilklukkur á leiðarenda í svona göngum.
Ég féll reyndar sjálf í þessa gryfju í sumar. Stikaði langt á undan hóp sem ég var að ganga með án þess að sinna því að vera samferða göngufélögum og leiðsögumanninum.
Ég held að ég hafi þurft að sanna fyrir sjálfri mér að ég þyrfti ekki að vera dragbítur á hópinn eins og ég er alltaf hrædd um að verða. Og þó ég hafi ekki verið eini undanfarinn í þeirri göngu finnst mér nú samt eftir á að þetta sér óþarfa span. Hvers vegna ekki bara að fá sér göngubretti og stilla upp úti í garði. Kemur í sama stað niður ef maður stoppar ekki við til að skoða landið og náttúruna og hlusta á þá sem þekkja örnefnin og söguna.
Ég fór í eina svona kappgöng í dag, fámenna göngu en sennilega hefði sá sem leiddi hópinn getað gengið tvisvar þessa leið sem við fórum ef við hin hefðum ekki verið að tefja hann. Ég lét það ergja mig. Fann svo sjálfa mig þegar ég hætti að reyna að halda í við hópinn og fór á mínum hraða síðasta spölinn með nefið ofan í mosanum og hrauninu til að finna lyktina af vorinu sem lá í loftinu í dag. Það var frábært.
En auðvitað verð ég að viðurkenna að þetta kapphlaup skilaði mér þangað sem ég hefði ekki farið annars og það er ágætt líka.
Ég labbaði sem sagt á Keili í dag.

5. mars 2005

Sundmót

Sat niðri í Laugum í dag í hitasvækju og svitnaði heil ósköp. Gleymdi auðvitað að fara í apótekið og kaupa verkjatöflur en held að hitinn þarna hafi slegið svo á vöðvabólguna að höfðuverkurinn rjátlaðist af mér meðan ég horfið á sundfólkið hita upp og keppa.
Keppni milli einstaklinga var ekki hörð, keppni hvers og eins við fötlunina og fyrir sjálfan sig var hörðust.
Þau komu öll í mark, sum með einn aðstoðarmann með sér einn var með tvo en synti sína fimmtíu metra og geislaði af ánægju þegar hann kom í mark.
Allir fengu verðlaunapening og öll eiga þau skilið verðlaun því hvert og eitt þeirra er sigurvegari og þeirra sigrar eru stærri en nokkurra annara íþróttamanna.
Þrír færeyingar, ósköp smár hópur komin langt að kom við hjartað í mér. Fannst þeir eitthvað svo umkomulausir en jafnframt svo ánægjulegt að þeir skuli eiga þess kost að taka þátt.
Styrktaraðilarnir ss. Rúmfatalegerinn, Icelandair og Actavis eru örugglega ekki að styrkja þetta félag vegna auglýsingagildisins því ekki voru svo margir þarna fyrir utan þjálfara og nánustu ættingja keppendanna og ef fjölmiðlar voru á staðnum hefur það farið framhjá mér.

Netpróf

Ég rakst á netpróf á síðunni hjá Hörpu og gat auðvitað ekki stillt mig um að prófa og þurfti svo auðvitað að bæta einu við til að gera betur.

Veit nú svo sem ekki hverju ég er bættari með þessa vitneskju en hér er hún nú samt.





You are












You Are In a Decent Mood







You aren't turning cartwheels, but you're having a pretty good day.

Some ups, some downs, but overall you're coming out ahead.

And who knows? Tomorrow could be even better!








You Are 35% Left Brained, 65% Right Brained



The left side of your brain controls verbal ability, attention to detail, and reasoning.

Left brained people are good at communication and persuading others.

If you're left brained, you are likely good at math and logic.

Your left brain prefers dogs, reading, and quiet.



The right side of your brain is all about creativity and flexibility.

Daring and intuitive, right brained people see the world in their unique way.

If you're right brained, you likely have a talent for creative writing and art.

Your right brain prefers day dreaming, philosophy, and sports.



Gamlar frænkur

Gamlar frænkur með uppkomin börn og enga kalla til að eyða tíma sínum í eru sívinsælar barnapíur. Ég og sjötug móðursystir mín eigum þetta sameiginlegt. Mjög vinsælar þegar skella á kennaraverkföll og lengri utanlandsferðir.
Síðastliðið vor fórum ég og ung frænka mín í helgarferði í Landmannalaugar og síðan beint í sveit til að stússast sauðburði í viku meðan foreldrar hennar skruppu til Hollands. Einhverntíma í vetur spurði hún svo mömmu sína hvert til útlanda hún ætlaði meðan við færum í sauðburðinn í vor!
Ég sé mína sæng uppreidda þetta vorið.
Annars er ég á leiðinni á íslandsmót Íþróttafélags fatlaðra í sundi með þessari frænku minni í dag og hún veður sennilega á mínum vegum í kvöld og í nótt. Það væri í þokkalegu lagi er ég hefð ekki vaknað með logandi hausverk og stífan háls af vöðvabólgu í morgun.
Best að koma við í apóteki á leiðinni á sundmótið.

3. mars 2005

Eldamennska og uppskriftir

Lina vill fá uppskrift að einhverju sulli sem ég sauð saman handa henni daginn sem hún ættleiddi mig. Sú ættleiðing var reyndar heldur endaslepp því eftir eldamennskuna strauk ég úr vistinni enda var ég ekki viss um hvort þetta væri þrælasala eða ættleiðing. Það runnu sko á mig tvær grímur þegar mamma hennar hringdi og vildi fá mig í skúringarnar hjá sér og Sjúkraliðinn neitað af þvi ég átti eftir að vaska upp og skúra. Nú er ég orðin munaðarlaus aftur en fann húslyklana mína svo ég þarf ekki að sofa á í undirgöngnum við brunarústir skiptistöðvarinnar.
Takk annars Sjúkraliði fyrir að skjóta yfir mig skjólshúsi þegar ég var læst úti, að öllu gamni slepptu þá kom það sér vel. (og meðan ég man. Flottir litir á bolunum þínum og þeir fara þér vel. Meiri liti í lífið)

Annars var uppskriftin sem var grunnurinn að eldamennskunni þetta kvöld eitthvað á þessa leið.

Kjúklingabringur eftir efnum og aðstæðum
1 dl tómatsósa
1 dl cola light.
1 tsk. ferskur rifinn engifer
Salt, pipar og tabasco

Kúrbítur
Paprikka
laukur
Kjöt eða grænmetiskraftur, salt pipar og hvítlaukur ef vill.

Við byrjum á þvi að skipta Cola lihgt út fyrir Pepsi Max (snarlega), engifer er kannski til og kannski ekki og þá sleppum við honum eða gleymum nema hann sé til og við munum eftir að nota hann. Það er betra að muna eftir salti og pipar sem er stráð á kjúklingabringurnar annað hvort í sósunni eða á þær ef þær eru aðeins brúnaðar á pönnu áður en Pepsi-tómatsósunni er hellt yfir. Tabasco sósa fanns ekki í mínum skáp þegar ég eldaði þetta fyrst og ég komst að þvi að Roasted Chili frá Thai choice er fínt í staðin en þurkaða chilið sem var í kryddihllu Ekki Pólska tengdasonarins kemur ekki í sama stað niður. Paprikka er bara alls ekki góð svo við notum eitthvað annað í staðin. Gulrætur, blómkál, brokkál eða fennel, eitt eða allt eftir þvi hvort sólin skín eða þokan byrgir sýn. Grænmetið léttsteikt á pönnu eða bakað í ofni, allavega ekki soðið í mauk en það er fínt að sjóða það í Pepsi sósunni og ég mæli með ananasbitum út í allt saman.
Af því við fórum svangar að kaupa í matinn voru keyptar sætar kartöflur og hafðar bakaðar sætar kartöflur með en það er ekki gott að setja þær saman við því bragðið af sósunni er svo yfirgnæfandi. Ég á eftir að prófa venjulegar karftöflur, gæti trúað að það sé fínt að hafa þær í grænmetispottrétti soðnum í þessari sósu. Er reyndar búin elda mér grænmeti í Pepsi Max-tómatsósu og sleppa kjúklingnum úr uppskriftinni.
Gerðu svo vel Sjúkraliði og prófaðu ný afbrigði. Bara muna PEPSI MAX!

2. mars 2005

Snilld

Hálffrosið vanillujógúrt og fræ og safi úr einu granadepli út á er snilldaruppskrift og að vísu ekki fljótleg að elda hana, jógúrtið þarf að vera 2-3 tíma í frystihólfinu mínu en ég þarf ekki að hafa mikið fyrir eldamennskunni. Love it.