25. mars 2005

Fráhvörf

Fráhvarfseinkennin eru eitthvað að lagast og ég farin að sætta mig við að vera í bænum um páskana. Ekki skrítið þó mér finnist öfugsnúið að komast ekki burt, það rifjaðist upp að ég hef ekki eytt páskunum í bænum í mörg ár. Síðustu páska var ég austur á landi og páskana áður í Prag og þar og þar áður ábyggilega fyrir austan.
Þá er bara að vera jákvæð og nota þessa frídaga í að gera allt það sem mig langar til að gera og kem aldrei í verk.
Gærdagurinn fór í að gera efri hæðina íbúðarhæfa og sonurinn segist ætla að sjá um sinn hlut af neðri hæðinni en ég hef einhverjar smá efasemdir um að hann standi við það. Hann ætlaði að mála kjallarann hjá kærustunni í dag svo hún (þau) geti flutt niður fljótlega. Allstaðar ætlar hann að vera í kjallaranum þetta grey. Hann getur þá sungið ,,í kjallaranu, í kjallaranum hann...". Framhaldið af textanum er víst öfugmæli í þessu tilfelli.
Svo væri ráð að fara og labba eitthvað af öllum þessum leiðum hérna í nágrenninu sem mig langar til að skoða. Sjúkarliðinn var með einhver plön um að ganga með mér en hún er að drepa sig á vinnu og ef hún ætlar að stunda einhverja útiveru er sennilega eina ráðið að standa við að gerast útigangsmaður. Sem nota bene minnir mig á að lögreglan kom með ,,útigangsmann" á heimili hjá hálfáttræðum manni sem ég þekki og hann kunni ekki við að úthýsa ,,útigangsmanninum". Auðvitað átti hann bara heima á vinnustaðnum hjá sjúkraliðanum og hvergi annarstaðar og hefði átt að keyra hann beint þangað en svona er ,,kerfið". Það bitnar helst á þeim sem eiga erfiðast með að bera hönd fyrir höfuð sér.
Ætli ég fari ekki bara og athugi hvernig ástandið er.

Svo finnst mér eiginlega að ég ætti að vinna aðeins. Ææi.

Engin ummæli: