6. mars 2005

Göngugleði

Hafrún fer annað slagið í gönguferðir um nágrenni Reykjavíkur. Hittir þá stundum fólk sem kemur saman á sunnudagsmorgnum og labbar eftir efnum og aðstæðum um fjörur eða fjöll.
Þessir hópar eru misjafnir eins og gefur að skilja. Göngufólk er misjafnt, sumir rölta með nefið ofan í jörðinni til að skoða gróður, grjót og jarðveg. Aðrir setja hnakkann milli herðablaðanna og horfa til himins meðan þeir ganga (horfa að vísu niður fyrir tærnar á sér annað slagið, annars dyttu þeir fljótlega). Sumir staldra oft við og skoða kennileiti og landslagið, aðrir finna sér upphafs og endapunkta göngunnar og stika á milli án þess að stoppa eða líta í kringum sig. Þeir einstaklingar eru langt á undan meginhópnum og því miður er gangan oft löguð að þeim. Hinir fá ekki eða gefa sér ekki tíma til að stoppa og njóta útiverunnar, það lenda allri ósjálfrátt í þessu kapphlaupi. Ég á oft von á að sjá stimpilklukkur á leiðarenda í svona göngum.
Ég féll reyndar sjálf í þessa gryfju í sumar. Stikaði langt á undan hóp sem ég var að ganga með án þess að sinna því að vera samferða göngufélögum og leiðsögumanninum.
Ég held að ég hafi þurft að sanna fyrir sjálfri mér að ég þyrfti ekki að vera dragbítur á hópinn eins og ég er alltaf hrædd um að verða. Og þó ég hafi ekki verið eini undanfarinn í þeirri göngu finnst mér nú samt eftir á að þetta sér óþarfa span. Hvers vegna ekki bara að fá sér göngubretti og stilla upp úti í garði. Kemur í sama stað niður ef maður stoppar ekki við til að skoða landið og náttúruna og hlusta á þá sem þekkja örnefnin og söguna.
Ég fór í eina svona kappgöng í dag, fámenna göngu en sennilega hefði sá sem leiddi hópinn getað gengið tvisvar þessa leið sem við fórum ef við hin hefðum ekki verið að tefja hann. Ég lét það ergja mig. Fann svo sjálfa mig þegar ég hætti að reyna að halda í við hópinn og fór á mínum hraða síðasta spölinn með nefið ofan í mosanum og hrauninu til að finna lyktina af vorinu sem lá í loftinu í dag. Það var frábært.
En auðvitað verð ég að viðurkenna að þetta kapphlaup skilaði mér þangað sem ég hefði ekki farið annars og það er ágætt líka.
Ég labbaði sem sagt á Keili í dag.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Nú rata ég og einhvern daginn læðumst við þarna upp aftur á okkar hraða.
HB