Ég ætlaði að vinna í dag og gerði það. Slugsaðist samt ekki í vinnu fyrr en seint og síðarmeir, taldi sjálfri mér trú um að ég væri ekki við góða heilsu og hékk yfir engu langt fram yfir hádegi. Kom svo ekki heim fyrr en dóttirin var búin að elda handa mér kvöldmatinn. Það kostaði auðvitað heilmiklar fortölur að fá hana til að axla þá ábyrgð en það tókst fyrir rest og maturinn var fínn. Það var ekki málið heldur það að áður en ég komst inn úr forstofunni og meira að segja áður en ég komst úr skónum, náði ekki einu sinni að renna niður rennilásnum á öðrum þeirra áður en lesturinn hófst.
,,Mamma hvað ertu eiginlega gömul". (Hún ætti nú að fara nokkuð nærri um það ætli ég sé ekki ennþá rúmum 20 árum eldri en hún.)
,,Sko hér búum við bara tvær og erum báðar eldri en 12 ára" (rétt hjá henni, hún hefur alltaf verið nokkuð skýr)
,,Ættum við þá ekki að geta gengið þannig um að það þurfi ekki að eyða mörgum tímum í viku í að taka til eftir okkur" (Mér varð eitthvað svarafátt.... )
Svo mörg voru þau orð og ég fékk að fara úr skónum þegar ég var búin að lofa því hátt og hátíðlega að raða þeim í skóhilluna jafnóðum. Nú læðist ég um á tánum og geng frá eftir mig jafn óðum.
Kötturinn mælti með flutningum enda nennir hann aldrei að taka til eftir sig.
1 ummæli:
Það að ganga frá er það einhver hæfileiki sem maður á að öðlast um 12 ára aldurinn? Því ef svo er hef ég verið snuðuð um þennan hæfileika þegar ég varð 12 ára.
Skrifa ummæli