29. nóvember 2006

Ég er að hugsa um að skipuleggja ferðalag næsta sumar. Ekki þetta langa sem ég ætla í og Jóhanna K. er búin að skipuleggja heldur annað styttra.
Ég er alveg í stuði til að skipuleggja ferðalag og gleyma öllum vsk pælingum en það dugir víst skammt.

Vitafélagið

Ég þarf að fara að laga tenglalistann minn en þangað til þetta.
Og jú sjóminjasafnið er að Grandagarði 8 í Reykjavík.

Spegill fortíðar - silfur framtíðar
Íslensk strandmenning - staða hennar og framtíð
Íslenska vitafélagið stendur fyrir röð fyrirlestra veturinn 2006-2007, í samvinnu við Víkina–Sjóminjasafnið í Reykjavík. Fyrirlestrarnir eru haldnir í Sjóminjasafninu, Grandagarði 8 og hefjast ávallt kl. 20.30.


Hverjir ætluðu annars með mér?

29. nóv.

Miðvikudagur 29. nóvember
20:30 Kolkuós : höfn biskupsstólsins á Hólum í Hjaltadal: Ragnheiður Traustadóttir, fornleifafræðingur
21:00 Kaffihlé.
21:30 Hornbjargsviti - við ystu nöf: Ævar Sigdórsson, Óvissuferðum.


Þarna ætlaði ég að vera á morgun og var rétt búin að gleyma því. Það var ekki fyrr en ég sá að íslenskir fjallaleiðsögumenn ætla að vera með myndasýningu sem mig langar á að ég mundi að ég ætlaði eitthvað annað.

Víkin-Sjóminjasafn ætli það sé safnið niðri á Granda?

27. nóvember 2006

Af jarðaförum og pestum

Sunnudagur
Kom heim á sunnudagskvöld eftir langa keyrslu í misjöfnu veðri og mis mikilli hálku. Var fegin að vera á nelgdu og 4x4 þó það væri svo þröngt um okkur fimm í bílnum að sennilega þurfum við ekki að tala meira saman fram að jólum eftir þessar ansi þéttu samvistir.
Hafði náð mér í ælupest tímanlega fyrir ferðina til að byrja að æla aðfaranótt laugardags, heppilegur undirbúningur fyrir síðasta áfangann í ferðinni og jarðaförina. Allt slapp það þó.

Laugardagur
Það var éljagangur á laugardaginn, snjór yfir öllu og gamlir eyðibæir kúrðu nærri ósýnilegir í rökkrinu inni í dalnum.
Kirkjugluggarnir sneru upp að snarbröttum fjöllunum sem minntu óþægilega á hvernig snjórinn á það til að hlaðast upp í þeim og renna svo óstöðvandi og eyðileggjandi niður hlíðarnar. Tveir jafnaldrar mínir lögðu á sig fyrir langt um löngu að að kanna samskonar landslag og leita nýrra leiða milli bygðarlaga, það var þeirra hinsta för.
Líkmennirnir urðu að leggja frá sér kistuna í andyrinu þegar í ljós kom að líkbíllinn var ókominn að kirkjunni. Það tók dágóða stund að finna út að öku- og umsjónarmaður hans var víðsfjarri og enginn til að sjá um aksturinn á líki og kistu að kirkjugarðshliðinu.
Einhvernveginn fannst okkur við hæfi að gamli maðurinn sem við vorum að kveðja fengi að hvíla þarna þennan stundarfjórðung sem tók að bjarga málum. Við okkur blasti dalurinn sem hann hafði sótt í á hverju sumri frá barnæsku og sárt þótti honum að komast ekki þangað þetta síðasta sumar sem hann lifði. Það læddist að manni sá grunur að hann hefði átt eftir að njóta hans í síðasta sinn.

Mánudagur
Hélt mig heima við í dag, pestin er þó á undanhaldi. Ætlaði að sinna náminu meðan ég lægi en fór óvart að þýða hekl uppskriftir og áður en ég vissi af var dagurinn að kveldi kominn.
Ég er ekki vel sátt en það er víst ekki við aðra að sakast og mamma fær þó uppskriftir til að hekla eftir.
Fátt er svo með öllu illt... !

22. nóvember 2006

Dekkjamálin komin í lag. Bíllinn klár en farþegarnir ekki.
Færðin í lagi og snjór fyrir austan.
Vefmyndavélar vegagerðarinnar eru stórsniðugar. Ég sé til dæmis í þeim að það er myrkur um allt land núna en af því það er lýsing við gangnamunnana í Oddskarði sést að það er bylur þar í myrkrinu.

Af dekkjamálum og ófærð

Ég er að búa mig og bílinn undir að keyra austur á land í vetrarfærð og dekkjagangurinn sem ég fékk undir hann er eitthvað skrítinn. Ein felga passaði bara ekki.
Bifvélavirkinn ætlar að taka að sér að skoða þetta og fullreyna hvort ég get ekki notað dekkin. Það munar töluverðu að þurfa að kaupa ný dekk á 50 þús. eða geta notað þessi 8 stk. á felgum og borga ekki nema 20 þús. fyrir allan pakkann.

Fékk kvíðakast og hnút í gær þegar ég frétti af því að bróðir minn væri einhverstaðar á ferð og enginn vissi hvar eða hvaða leið hann hefði farið. Væri utan símasambands og margir klukkutímar síðan hann lagði af stað.
Þetta var ekki svona vægt kvíðakast!
En þessi, bráðum fertugi, litli bróðir minn fannst nú heill á húfi og var þá held ég að verða búinn að moka sig upp úr skaflinum sem hann hafði fest sig í á lokuðum vegi.
Þverskan kemur mönnum stundum í bobba en bræður eru dýrmætir og mínir eru einum of fáir.

21. nóvember 2006

Ég þarf að finna mér tíma til að sækja skíðin og prófa þau.

...og skíðin

ÉG fékk lánuð gönguskíði.

19. nóvember 2006

.....og snjórinn

-------------
Úti er snjór og ég er búinn að prófa fjórhjóladrifð á bílnum á rúntinum niður á Lindargötu. Ég fór allra minna ferða og leit með miklum hroka og yfirlæti niður á vesalingana sem spóluðu um á fólksbílunum sínum á sumardekkjunum. Ég hefði nú reyndar þurft að fara að koma mér af sumardekkjunum sjálf!
Svo fór ég út að moka snjó, það er gaman að moka snjó þegar það er ekki daglegur viðburður. Og mig langar til að fara út í snjóinn og moka meira, eða bara eitthvað en það bíða verk inni og í aukavinnunni.

_____________
Mér finnst það stórmerkilegt að ég skuli ekki geta skrifað lengri pistla en þennan hér á undan í einu.
Ég þurfti að klippa þessar tvær málsgreinnar af til að geta birt þetta á síðunni!
Ætli ég sé búin að tala of mikið síðustu tvö árin. Það bara getur ekki verið ég veit um fullt af fólki sem talar sko miklu meira en ég.

Mýrin

Fór loksins að sjá Mýrina í bíó í gær, það er óskp notalegt að sitja í tómum sal í Háskólabíó. Tíu sýningar á laugardagskvöldi eru sennilega ekki vel sóttar amk ekki á mynd sem búið er að sýna bráðum í mánuð.
Myndin var góð og mér gekk ágættlega að sætta mig við flesta leikarana í hlutverkum sínum, það háir manni auðvitað að vera búinn að lesa allar bækurnar um þrenninguna og móta sér einhverjar hugmyndir um útlit og framkomu sögupersónanna. Þau eru ekki öll eins og maður sá þau fyrir sér við lesturinn.
Verst gekk mér að sætt mig við Ólavíu Hrönn í sínu hlutverki, ég var og er ennþá með ákveðna mynd í huganum af hennar persónu og Ólavía bara smellur ekki inn í það og nær ekki að breyta mínum hugmyndum eins og hinir leikararnir náðu þó að gera.
Svo hallast ég að því að vera sammála konunni sem kvartar undan útlendingadekri í myndinni. Hennar rökstuðningur er að atriðið sem gerist í Smiðshúsi þ.e. blámálaða flagnaða bárujárnshúsinu í rokrassi á hjara veraldar sé stílfært fyrir útlendinga, sviðaát Erlendar líka!
Þessi búskapur Elína á sér engan stoð í sögunni, þar bjó hún í stóru, fallegu einbýlishúsi með sérlega vel ræktuðm garði. Og það baksvið finnst mér eiginlega mun sterkara fyrir þennan harmleik sem rifjaður er upp í gegnum Elínu. Mun frekar en þetta storm-eyðibýla útlit sem þarna var sett upp.
Harmleikirnir, sorgin, óréttlætið og biturðin sem hún er fulltrúi fyrir kemur sterkara fram þegar andstæðu bakgrunnur er notaður. Þetta er svipað og að nota andstæðuliti í málverki.

17. nóvember 2006

Ég er að hugsa um að sofa í sólahring.

Enn frost

Það er ennþá frost og rok og heilinn í mér er svo dofinn að ég nenni ekki einu sinni að skoða veðurspána.
Það verður farið austur um næstu helgi en ég veit bara ekki hvenær eða hvernig. Það skýrist þegar nær líður, þangað til verð ég að sætta mig við að vera óskipulögð í ferðamálum.
Þ

16. nóvember 2006

Vetur

Í fyrstu vetrarstormum slitnaði lífsþráðurinn.
Vonandi heldur hann ökuréttindunum hinumegin.

fj...


Ég missti af myndakvöldi.
Ég er orðin óþægilega gleymin!

15. nóvember 2006

Frost er úti

Það er bókstaflega skítkalt.
Ég held að það sé langt síðan það hefur verið svona kalt svona snemma vetrar. Við erum náttúrulega orðin svo vön því að sleppa við vetrarveður að maður kann þetta bara ekki lengur.
Ég þrælaðist nú samt út í 10 mín. göngtúr áður en ég fór í vinnuna í morgun enda ekki orðið svona hvasst þá. Ég er ekki viss um að ég fari neitt út í fyrramálið, nema auðvitað út í bíl og keyri í vinnuna.
Yngra afkvæmið kom heim áðan og kvartaði undan kúplingunni í bílnum sínum og undan tryggngafélaginu sínu og ég veit ekki hvað og hvað. Hann var þreyttur skininð.
Þegar hann ætlaði af stað heim neitaði bíllinn að fara í gír og hann sá fram á stórkostlegar viðgerðir á nýviðgerðri kúplingunni. Kennarinn kom við og lyfti upp fyrir hann kúplingspedalanum og liðkaði barkann sem var svo stirður í kuldanum að hann náði ekki að kúpla. Já og ég man að þetta hét ,,tengsli" í námsefni Kennarans í iðnskólanum á sínum tíma.
Segið þið svo að ég muni aldrei neitt.

Það líður óðfluga að föndurdögum og tónleikadögum og hinu og þessu skemmtilegu og ég er að vinna alltof lengi fram eftir þessa dagana.
Ætlaði að segja eitthvað meira en man það ekki stundinni lengur.

12. nóvember 2006

Helgin

Ég lifiði þessa helgi af, naumlega þó.
Hitti konu sem er í myndlistarklúbbi en ekki saumaklúbbi, ég kom málum svo fyrir að ég get spurt hana út í það einhverntíma síðar.
Hitti helling af öðru athyglisverðu fólki, kvaddi fólk sem ég er búin að hitta oft undanfarið ár og á eftir að sakan þess að hittingurinn okkar er liðinn.
Bjó mig undir að hitta nýtt fólk reglulega næstu tólf mánuði og safnaði á innleggsreikning mannlegara samskipta og þekkingar.
Allt er þetta gott en ég er samt með einhverja óláns þreytuverki hér og þar.
Ég ætla að skreppa út og hitta Gamla mannin sem ég hef ekki séð í margar vikur eða mánuði og kannski ég heilsi upp á Sjúkraliðann í heimleiðinni ef hún er ekki enn að hlusta.

10. nóvember 2006

Aðalfundurinn

Ég var á aðalfundi í dag. Fór að vísu fyrst á ráðstefnu eða námskeið og lærði allt um ekkert sem ég ekki vissi fyrir.
Lærði svo að hlægja, ég lærði strætóhlátur og flugvélahlátur og hláturkokteil og ... og.. og .. já ég lærði líka garslátturvélahlátur. Æfðum svo nokkrar útgáfur af hlátrum í viðbót en ég man ekki hvað þeir heita allir saman.
Kom heim að loknum fundi og kúrekadansæfingu og heilsaði syninum með handabandshlátri, svei mér þá ef hann skammaðist sín ekki helling fyrir mömmu sína. Ég hef ekki séð hann svona kindarlegan lengi en hann gat nú ekki annað en hlegið smávegis sjálfur og aðeins meira þegar ég tók fyrir hann flugvélahláturinn.
Því miður er ég strax búin að gleyma kántrídönsunum sem ég lærði en þetta var gaman og ágætis líkamsrækt.
Kennarinn þekkir línudansfólk, það er eiginlega spurning um að láta hann koma sér í kynni við það.

9. nóvember 2006

Í fréttum er þetta helst.

Ég er enn á lífi og sá þetta á ferðasíðunni minni: ,,Kákasus er 30.apr-20.maí. Nánar um það fljótlega".

Búin að fara á bókasafnið og ná í Lönd og lýður og lesa um fyrrum Sovéttríkin.

Lægsti hluti Armeníu er 400 m. yfir sjávarmáli.

Það er klikkað að gera fram yfir helgi. Félagsmálastörfin heimta sitt núna! Ó mig auma, hvað var ég að slysast á námskeið í fundarstjórn?
Þetta getur nú reyndar verið gaman svona annað slagið.

Ég ætla að föndra með vinnunni 23. nóv.

Ef ég nenni ekki að bíða eftir vinnuförndri föndra ég fyrr- nú eða kannski bara seinna. Þetta er hvort sem er stimpla- jóla- korta- vinna í vinnuföndri. Mikið af fólki og mikill kliður. Mér finnst það ekki alltaf þægilegt.

Ég kaupi mér plastkúlur ætla að raða í þær hinu og þessu. Sumar er hægt að taka í tvennt en í aðrar þarf að raða niður um smá stút. Það verður eins og að búa til flöskuskip.

Svo fer ég búð úr búð og leita að dóti sem er nógu lítið til að komast í jólakúlurnar mínar.

Eftir helgi er ég að hugsa um að sinna námi, ef ske kynni að mér væri ekki alveg úthýst úr áfanganum.

Fjölskyldan í Engjasmáranum stækkaði í vikunni. Það er langt milli þeirra en ég held nú samt að ég telji þau 4 manna fjölskyldu núna.

Til hamingju Gilla, Friðjón og Ellý Rún.
(Eg linka ekki inn á myndirnar! Þó það sér freistandi Gilla)

8. nóvember 2006

Hundslappadrífa

Það er svo þétt hundslappadrífa að það rétt grillir í húsin hinumegin við Grafarvoginn.

2. nóvember 2006

Sumir eiga þó flottara útsýni



ég verð að viðurkenna það. Mitt sjónarhorn á þann gamla er nú samt á fallegri hlið á honum (finnst mér).

Tekið af Wikipeda og mér sýnist höfundur vera Elísabet Guðmundsdóttir. 










16. 11.2010
Ég rakst á þessa gömlu færslu hérna og sá að það þýðir lítið að vera að linka inn á myndir á vefsíðum, ekki einu sinni hjá sveitarfélgöum, myndirnar sem voru í upphaflegu færslunni eru horfnar.
Ég var að spá í að henda þá færslunni en af því mér finnst stundum athyglisvert að sjá hvað ég var að hugsa fyrir mörgum árum ákvað ég að lofa henni að standa. Ég setti því inn nýja mynd frá svipuðu sjónarhorni og afritaði hana núna í stað þess að treysta á link.

Útsýnið mitt

Ég á svo frábært útsýni að ég held ég verði að fara að deila því með ykkur.
Ég verð að fara að athuga hvort ég get tengt myndavélina í vinnutölvuna og sett inn myndir af Esjunni á hverjum degi.

16.11.2010
Og hér er myndin horfin. Gaman að þessu!
Ég þarf að finna hana aftur við tækifæri

Drulluslóðir sniglafroska

Ég er ekki svo skyni skroppin að ég átti mig ekki á að alkóhólismi er sjúkdómur, fjölskyldusjúkdómur og það er ekki bara sá sem drekkur sem er veikur.
Stundum læt ég þó eftir mér að vera reið út í allt þetta fólk sem er fárveikt án þess að gera nokkuð í sínum málum heldur lætur sjúkdóminn endalaust bitna á öðrum.
Sumir sjúklingar geta svo eytt ævinni í að hreinsa upp drulluslóð annara. Auðvitað eiga þeir hluta í henni líka, þeir sættu sig jú við ástandið.
Helv…. djöf....

Sniglar skilja eftir sig slímuga slóð, ekki froskar.

Afmælissöngurinn

Undanfarnar vikur hef ég átt það til að vakna eldhress á morgnana, drífa mig út í göngutúr og græja mig svo í vinnu löngu fyrir klukkan sjö á morgnana.
Þegar við mæðgurnar vorum sambíla í nokkra daga hentaðuðu þessa morgunvenjur dóttir minni illa, hún var yfirleitt sofandi þegar ég vildi fara að leggja af stað í vinnuna.
Suma morgna, eftir að haf nokkrum sinnum sagt henni hvað timanum leið, stillti ég mér upp við rúmstokkinn hennar og söng fyrir hana það lag sem ég var með á heilanum í það og það sinnið. Ég fékk ALDREI góðar undirtektir, frekar skammir en samt dugði það ekki til að hún sprytti á fætur!
Í dag á dóttir mín afmæli og ég hef hana grunaða um að fara á fætur löngu á undan mér í morgun til að losna við afmælissönginn sem ég var að undirbúia að syngja fyrir hana.

TIL HAMINGU MEÐ DAGINN DÓTTIR GÓÐ.

Ég áskil mér svo rétt til að syngja fyrir þig í kvöld.