27. nóvember 2006

Af jarðaförum og pestum

Sunnudagur
Kom heim á sunnudagskvöld eftir langa keyrslu í misjöfnu veðri og mis mikilli hálku. Var fegin að vera á nelgdu og 4x4 þó það væri svo þröngt um okkur fimm í bílnum að sennilega þurfum við ekki að tala meira saman fram að jólum eftir þessar ansi þéttu samvistir.
Hafði náð mér í ælupest tímanlega fyrir ferðina til að byrja að æla aðfaranótt laugardags, heppilegur undirbúningur fyrir síðasta áfangann í ferðinni og jarðaförina. Allt slapp það þó.

Laugardagur
Það var éljagangur á laugardaginn, snjór yfir öllu og gamlir eyðibæir kúrðu nærri ósýnilegir í rökkrinu inni í dalnum.
Kirkjugluggarnir sneru upp að snarbröttum fjöllunum sem minntu óþægilega á hvernig snjórinn á það til að hlaðast upp í þeim og renna svo óstöðvandi og eyðileggjandi niður hlíðarnar. Tveir jafnaldrar mínir lögðu á sig fyrir langt um löngu að að kanna samskonar landslag og leita nýrra leiða milli bygðarlaga, það var þeirra hinsta för.
Líkmennirnir urðu að leggja frá sér kistuna í andyrinu þegar í ljós kom að líkbíllinn var ókominn að kirkjunni. Það tók dágóða stund að finna út að öku- og umsjónarmaður hans var víðsfjarri og enginn til að sjá um aksturinn á líki og kistu að kirkjugarðshliðinu.
Einhvernveginn fannst okkur við hæfi að gamli maðurinn sem við vorum að kveðja fengi að hvíla þarna þennan stundarfjórðung sem tók að bjarga málum. Við okkur blasti dalurinn sem hann hafði sótt í á hverju sumri frá barnæsku og sárt þótti honum að komast ekki þangað þetta síðasta sumar sem hann lifði. Það læddist að manni sá grunur að hann hefði átt eftir að njóta hans í síðasta sinn.

Mánudagur
Hélt mig heima við í dag, pestin er þó á undanhaldi. Ætlaði að sinna náminu meðan ég lægi en fór óvart að þýða hekl uppskriftir og áður en ég vissi af var dagurinn að kveldi kominn.
Ég er ekki vel sátt en það er víst ekki við aðra að sakast og mamma fær þó uppskriftir til að hekla eftir.
Fátt er svo með öllu illt... !

1 ummæli:

Hafrún sagði...

Úps og ...
Nei hún var ekki á latínu en ég er viss um að þig langar í þær.