Z–a í lesaðstöðunni
í Árnagarði leiðir af einhverjum ástæðum hugann að þeim andans manni Jóni
Helgasyni sem orti um z-u sína í Árnasafni
fyrir örfáum áratugum. Z-etum okkar
Jóns ekki saman að jafna, tengingin við Árna Magnússon er eiginleg eini
samnefnarinn en í mínum sporum hefði hann þó ekki verið í vandræðum með að
skella saman brag um z-una í kuldatrekknum í lesaðstöðunni.
Hér er aðstaðan í andyri fyrstu hæðar og þegar kólnar
á haustin streymir kalda og hreina loftið inn um dyrnar með þeim straumi
stúdenta sem koma og fara í og úr tímum og í og úr kaffistofunni inn af anddyrinu. Á vegg ofann við borðið sem ég álpaðist til
að setjast við með námsefnið er upplýsingaskjár og þegar fólk staðnæmist við
borðsendann og starir fram fyrir sig er ég aldrei viss hvort það er að glápa á
mig eða skjáinn ofan við höfuðið á mér.
Til að einangra
mig frá hælaskellum, ræskingum, hósta, tali og öllum þeim klið og áreiti sem
fylgir umferð fólks á svæðinu kemur
tónhlaðan (ipodin) í góðar þarfir og á lagalistanum (playlistanum) er óskipulagt
úrtak úr ýmsum áttum, Bubbi, Cohen,
Ramstein, Skálmöld og Hjaltalín glymja í eyrunum á mér í tilviljunarkenndri
röð. Það dugir þó að mestu leyti til að ég nái að
einbeita mér að Principles of Linguistic Change. Nú er ég nefnilega búin að
setja fram kenningu um að ef ég sit í skólanum með lítið annað en námsefnið haldi ég mig við það í stað þess að fara út um
víðan völl (lesist æði úr einu í annað). Nú þýðir ekkert að reyna að fá mig til að
sinna vinnu, ég hef engin tök á því og uppvask, ryksugan, þvotturinn og
áhugavert lesefni um miðaldabókmenntir er utan míns seilingarfæris. Það er
internetið þó ekki og því upplagt að tjá sig aðeins um þessa upplifun. Það má reyndar draga ýmsar ályktanir af
þessari síðustu upptalningu m.a. hvers vegna höfundur hennar er ekki að yrkja ódauðlega
ljóðabálka um veru sína innan múra Árnagarðs.
Innan við múrvegginn átti ég löngum mitt sæti,
utan við kvikaði borgin með gný sinn og læti;
hálfvegis vakandi, hálfvegis eins og í draumi
heyrði ég þungann í aldanna sígandi straumi.
utan við kvikaði borgin með gný sinn og læti;
hálfvegis vakandi, hálfvegis eins og í draumi
heyrði ég þungann í aldanna sígandi straumi.
– – –
(Jón Helgason)
(Jón Helgason)
1 ummæli:
Hugsaðu þér hvað það væri þægilegt ef ég gæti ýtt á like takka þegar ég álpast hér inn (daglega)....
Skrifa ummæli