11. nóvember 2021

Er bloggið á lífi?

 Ég rak augun í þær stórfréttir núna á haustmánuðum að bloggið væri lifnað við, væri komið úr líkhúsinu á gjörgæslu og hugsaði með mér að það væru nú aldeilis góðar fréttir. Svo skrapp ég inn á facebook og gleymdi blogginu aftur, um langa hríð. En svo þurfti ég að rifja upp gamlar féttir af sjálfri mér og mundi hvað stór hluti af lífi mínu var skráður hér. 

Þetta hér er greinilega rétti staðurinn til að leita að sjálfum sér því ég fann ýmislegt um mig sem ég var búin að gleyma en ekkert sem ég vildi gleyma og sá að flest það sem var fært í skjáletur á blogger.com var skrifað af einskærri ritánægju. Mun meir en ég finn í þessum stuttu facebookfærslum sem ég dunda mér við að skrifa annað slagið. 
Hitt er annað mál að ég hef ekki hugmynd um hvort ég rifja upp þessa gömlu takta eða geymi það í önnur sex ár að skrá mig inn og skrifa nokkur orð. Við sjáum til, kannski kemur sólin upp hér líka. 
3. ágúst 2015

Að lesa og skrifa list er góð

læri það sem flestir ...

Ég les og les eftir forskrift sem ég gaf sjálfri mér í vetur. 52 bækur á 52 vikum og til að flækja málið enn frekar ákvað ég að blogga um hverja bók. Ég er hrædd um að í árslok verði einhverjar bækur á listanum ólesnar og óbloggaðar en hvað um það, mér finnst þetta skemmtilegt fyrirbæri. Ég efast ekkert um getu mína til að lesa 52 bækur á ári en þær sem ekki passa inn í forskriftina teljast ekki með og þær eru orðnar fáeinar strax.

Ég yfirgaf blogger og færð mig á Wordpress og stundum velti ég því fyrir mér til hvers. Þar get ég ekki sett um lista yfir þau blogg sem ég les, þar get ég ekki birt pistlana á völdum dagsetningum og það getur komið sér afspyrnu illa. Til dæmis þegar pistlahöfundur situr í netsambandsleysi og færir hugrenningar sínar inn í pappírsdagbók og ætlar að færa yfir í stafræna formið síðar, þá væri gaman að geta birt efnið á þeim dagsetningum sem þær voru skrifaðar á. En svona er lífið, maður fórnar einu fyrir annað og á ekki að vera að væla undan því og svo er rétt að reka nefið hér inn annað slagið og rifja upp umhverfið.

Ég skrifa samviskusamlega bókapistla bara fyrir sjálfa mig en samt fæ ég samviskubit ef ég stend mig ekki í því, Rökkurbýsnir voru kláraðar um daginn.
.

24. janúar 2015

...vara sandr né sær né svalar unnir,

Á leslistanum mínum fyrir árið 2015 er skráður þríleikur eða saga í þremur bindum.  (Hvenær varð þetta orð þríleikur til sem lýsing á sögu í þremur bindum? Er til tvíleikur og fjórleikur í sömu merkingu?) Þar err lýst veröld fólks sem bjó í samfélagsfylkjum sem lögðu áherslu á ákveðna eiginleika. Bersögli lagði allt upp úr hreinskilni, Ósérplægni á sjálfsafneitun, Hugprýði á hugrekki og svo framvegis. Þolinmæði var ekki eitt af fylkjunum  en mér líður þessa dagana svolítið eins og ég þurfi að koma upp þannig fylki hér á heimlinu.
Fylkið það yrði auðvitað frekar fámennt, bara ég og tveir kettir, það yrði þá nokkurs konar þríleikur, annar kötturinn er reyndar afspyrnu þolinmóður og rekur bara annað slagið upp væl þegar hann kemst ekki út, ekki þó nema hann sjái til mannaferða. Hans veikleiki er lykt af soðnum fiski, og stundum kjúklingi, og þegar þannig angan berst um húsið þarf ég að taka kauða og loka hann inni í herbergi. Þar bíður hann reyndar þolinmóður þar til ég man eftir að hleypa honum út.
Hitt dýrið veit ekki hvað þolinmæði er heldur krefst réttar síns af mikilli heift þegar þannig ber undir. Það á að dropa úr krananum í baðkarinu því þar drekkur hann sitt vatn og það á að vera matur í matarílátum þegar honum hentar. Þá á ekki að loka svefnherbergisdyrum á nóttunni ef honum skyldi hugnast að koma inn til að horfa út um gluggann eða hringa sig á kodda og ef ekki er orðið strax við kurteislega orðaðri beiðni breytist hún í háværan kraftmikinn einsöng með tilheyrandi krafsi og klóri í svefnherbergishurðina.
 Ég sjálf er að þjálfa mína þolinmæði gagnvart  einum kennara Háskóla Íslands  sem hefur nú 17 dögum  eftir próf ekki skilað af sér einkunum. Ég er alla jafnan hlynt því að gefa mönnum vinnufrið og æfa bara djúpöndun meðan þeir vinna sína vinnu  en nú á ég orðið svolítið erfitt með að ná andanum. Fyrir það fyrsta veldur nám mitt á vorönn á því hvernig þetta próf fór, náði ég eða féll. Ef ég náði er ég komin með 170 eininar á námsferlinum og á bara eftir að skrifa lokaverkefni. Ef ég féll, og mér gekk ekki sérlega vel í prófinu, þarf ég að taka eitt námskeið til viðbótar á vorönn, og ekki hvaða námskeið sem er, það þarf að vera þetta eina sem eftir er af námskeiðum í bundnu vali. Kennsla er auðvitað löngu byrjuð og ef ég ætla að byrja að læra fornamálið núna þarf ég að taka hraustlega á því. Svo var auðvitað þetta með að ætla að vera austur á landi meðan ég skrifaði lokaverkefnið - fornamálið er ekki kennt í fjarnámi. 
Til öryggis skráði ég mig í þetta blessaða námskeið daginn sem fresturinn á að endurskoða námskeiðsskráningu rann út, ég get skráði mig úr því aftur til 1. febrúar. Ég mæti þó ekki í tíma eða lít á námsefni meðan ég lifi í óvissu heldur pakka niður og gegn frá í íbúðinni sem er að fara í leigu eftir nokkra daga. 
Þolinmæði já, ég ætla að æfa mig í henni áfram og bíta á jaxlinn í nokkra daga enn áður en ég hringi í HÍ og græt fögrum tárum yfir óréttlæti heimsins.
Kafli tvö í þessari sögu er svo um námslán en ég nenni ekki að hafa hann langan. Ég bara með 20 einingar staðnar fyrir haustönn og þar af leiðandi engin námslán, ef ég fell í þriðja námskeiðinu fæ ég auðvitað ekki krónu en hverjum liggur á að vita svoleiðis smámuni? 

Ég eignaðist í vetur Eddukvæði í útgáfu Fornritafélagsins og þyrfti að fara að losna út úr óvissu ljúka af flutningum til að geta farið að lesa þau í ró og næði samhliða vinnu við lokritgerð. 


12. janúar 2015

Á öðrum slóðum

Ég er byrjuð að lesa bækur af lestrarátakslisanum mínum og ákvað að bæta aðeins við áskorunina og skrifa pistla um hverja bók sem ég les. Ég er í einhverri Googlefýlu þessa dagana og blogga því um bækurnar á hinni síðunni, kannski enda ég þar alveg, kannski ekki. Hverjum er svo sem ekki sama.
The Arrival eftir Shaun Tan. Saga án orða.

3. janúar 2015

Lesáramótaheitið 2015

Ég rakst á skemmtilegan lista og afar þægilega þýðingu á honum hjá einum þeirra fáu bloggara sem ég hef fylgst með í gegnum árin og bloggar enn. Ég tók listann traustataki og er að hugsa um að finna mér bækur til að lesa á árinu 2015. Bækur sem eru ekki á kennsluáætlun neins námskeiðs.
Listinn er í vinnslu og ég áskil mér rétt til að breyta honum eftir hentisemi minni hvenær sem er en allar ábendingar um heppilegt lesefni eru vel þegnar.
Listinn
Bók sem er lengri en 500 bls. - Eddukvæði I (með formála ?
Sígild ástarsaga - Piltur og stúlka eftir Jón Thoroddsen - Það er kominn tími ti að rifja þessa upp.
Bók sem varð að kvikmynd - Hobbitinn eftir Tolkien, síðasta myndin búin og komin tími á söguupprifjun.
Bók sem kom út á þessu ári - 2015? Valið á henni verður að bíða aðeins.
Bók með tölu í titlinum
Bók eftir höfund yngri en 30 ára - Eldhafið yfir okkur eftir Dag Hjartarson
Bók með persónum sem eru ekki menn
Fyndin bók - er þetta ekki afstætt hugtak?
Bók eftir konu -
Spennusaga
Bók með eins orðs titli
Smásagnabók - Koparakur eftir Gyrði Elísson
Bók sem gerist í öðru landi
Bók almenns eðlis
Fyrsta bók vinsæls höfundar
Bók eftir höfund sem ég dái en á ólesna
Bók sem vinur mælir með
Bók sem fékk Pulitzer-verðlaunin - Vegurinn eftir Cormac McCarthy
Bók byggð á sannri sögu
Bók sem er neðst á leslistanum
Bók sem mamma heldur upp á
Bók sem hræðir mig - Kata eftir Steinar Braga - Ég frétti að lesturinn reitti menn til reiði og ég hræðist þá tilfinningu.
Bók sem er eldri en 100 ára
Bók sem er valin út á kápuna
Bók sem ég átti að lesa í skóla en las aldrei - Hjartað býr enn í helli sínum/Ósjálfrátt - Þetta eru einu bækurnar sem ég hef svikist um að lesa alveg í heilu lagi.
Æviminningar
Bók sem ég get lokið við á einum degi – (ég get lokið við flestar bækur á einum degi)
Bók með andheitum í titlinum
Bók sem gerist á stað sem mig hefur alltaf langað að heimsækja
Bók sem kom út árið sem ég fæddist - Vogrek eftir Guðfinnnu Þorsteinsdóttur (Erlu)
Bók sem fékk slæma dóma
Þríleikur/bókaþrenna - Divergent þríleikurinn (Afbrigði, Andóf og Arfleifð) eftir Veronicu Roth
Bók frá bernskuárum mínum
Bók með ástarþríhyrningi
Bók sem gerist í framtíðinni
Bók sem gerist í gagnfræðaskóla/framhaldsskóla.
Bók með lit í titlinum - Ást á rauðu ljósi eftir Jóhönnu Kristjónsdóttur?
Bók sem fær mann til að gráta
Myndskreytt bók - The Arrival eftir Shaun Tan - kominn tími  á að rifja þessa upp.
Bók eftir höfund sem ég hef aldrei áður lesið  - Guðbergur Bergsson?
Bók sem ég á en hef aldrei lesið
Bók sem gerist í heimabæ mínum - Barist við Berufjörð eftir Einar Börgvinsson - þ.e. ef þetta þarf að vera skáldsaga.
Þýdd bók -
Bók sem gerist á jólunum -  (ætli Aðventa dugi?)
Bók eftir höfund með sömu upphafsstafi og ég. - ÁHB þar vandast málið ætli það þurfi að vera allir stafirnir og í réttri röð?
Leikrit
Bönnuð bók - bönnuð hvar?
Bók sem sjónvarpsþáttur/þættir er byggð á
Bók sem ég byrjaði á en lauk aldrei - Skuggi vindsins eftir Carlos Ruiz Zafón

http://9gag.com/gag/a8bQeNe?ref=fb.shttp://9gag.com/gag/a8bQeNe?ref=fb.s