Ég rak augun í þær stórfréttir núna á haustmánuðum að bloggið væri lifnað við, væri komið úr líkhúsinu á gjörgæslu og hugsaði með mér að það væru nú aldeilis góðar fréttir. Svo skrapp ég inn á facebook og gleymdi blogginu aftur, um langa hríð. En svo þurfti ég að rifja upp gamlar féttir af sjálfri mér og mundi hvað stór hluti af lífi mínu var skráður hér.
Þetta hér er greinilega rétti staðurinn til að leita að sjálfum sér því ég fann ýmislegt um mig sem ég var búin að gleyma en ekkert sem ég vildi gleyma og sá að flest það sem var fært í skjáletur á blogger.com var skrifað af einskærri ritánægju. Mun meir en ég finn í þessum stuttu facebookfærslum sem ég dunda mér við að skrifa annað slagið.
Hitt er annað mál að ég hef ekki hugmynd um hvort ég rifja upp þessa gömlu takta eða geymi það í önnur sex ár að skrá mig inn og skrifa nokkur orð. Við sjáum til, kannski kemur sólin upp hér líka.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli