16. desember 2011

Mistök

Ég byrjaði á bók í dag og áttaði með á því eftir 10 línur að mér hafa orðið á mistök. Ég veit nefnilega of mikið um þessa sögu, er búin að heyra og lesa of mikið um hana. Meðal annars hér og hér. Þetta fyrra las ég gegn betri vitund, ég hugsaði með mér að sennilega væri betra að lesa bókina fyrst, svo umfjöllunina og sjá hvort eða hverju ég væri sammála þar. Samt gat ég ekki stillt mig.

Seinni pistilinn las ég í gær og hann bætti svo sem litlu við þær upplýsingar sem ég var þegar búin að fá úr ýmsum áttum en þar er ein bein tilvitnun og meðan ég las þær línur í bókinni í dag leið mér eins og ég væri að borða upphitaða afganga sem allt bragð væri farið úr.

Ég er nokkuð viss um að þetta er góð saga of góð til að hafa eyðilagt kitlandi eftirvæntinguna, spurnina og undrunina sem manni er boðið upp á á fyrstu blaðsíðunni.

Upphafsorðin eru eftir forskriftinni, stutt grípandi setning sem nær athyglinni strax. Framhaldið ætti að leiða mann um stig spurnar um  hver talar, hvern á að óttast, í hverjum býr illskan og svarið ætti ekki að koma fyrr en í annari málsgrein.  Svarið var bara komið fyrir löngu síðan, kannski áður en bókin kom út, ég man það ekki. Mér finnst bara að ég hafi verið svikin um að gleyma mér í lestrinum og að uppgötva smátt og smátt það sem sagan færir manni. Ég held nefnilega að þannig eigi að lesa bækur og það er ástæðan fyrir því að oftast les ég ekki góðar, frægar og umtalaðar bækur meðan þær eru í umræðunni. Mér finnst betra að bíða þangað til lætin eru hjöðnuð svo ég geti lesið bókina ótrufluð af þeim. Lesið hana á mínum og hennar forsendum eingöngu.

Því var troðið inn í hausinn á mér á haustönninni að skáldverk (kannski voru það bara ljóðin sem var talað um) væru samstarfsverkefni skáldsins og lesandans, hvert ljóð er til í jafn mörgum útgáfum og lesendurnir, túlkanirnar eru margir. Ég held að það eigi líka við um skáldsögur. Ef enginn les þær, leggur í þær skiling og túlkar er þá yfir höfðu nokkur saga sögð?

Framvegis reyni ég að krækja framhjá allri bókaumfjöllun þangað til ég er búin að lesa sögurnar. Eftir lesturinn er svo gagnrýni og túlkun annara kærkomin viðbót við minn skilning á efninu.

Svo er bara því við að bæta að mér finnst bókarkápan á Glæsi virkilega glæsileg og ætla að halda áfram lestrinum á morgun.

6 ummæli:

Harpa Hreinsdóttir sagði...

Ja, þú hefðir þá líka ekki mátt hafa lesið Eyrbyggju - söguþráðurinn byggir algerlega á henni og beinar tilvitnanir í Eyrbyggju eru bæði margar og jafnvel mjög langar.

Skemmtu þér vel yfir Glæsi :) Til huggunar má nefna að ég tók einungis einn þráð til skoðunar, sem er illskan. Þetta er margþætt saga svo mín færsla var takmörkuð.


Og þess ber að geta að höfundurinn, Ármann Jakobsson, hefur skrifað talsvert um fötluð illmenni og áhrif fötlunar eða hvernig fötlun endurspeglast í bókmenntum. Því sjónarhorni er gert talsvert hátt undir höfði í Glæsi, án þess að ég vilji fara nánar út í þá sálma :)

Ég les yfirleitt ekki ritdóma sjálf og er sammála þér um að best er að lesa bækur ferskar af skoðunum annarra.

Hafrún sagði...

Ég les bókina alveg ótrufluð af Eyrarbyggju:) Mig minnir að ég hafi einhverntíma lesið hana en fyrir löngu síðan og man ekki söguþráðinn. Ég þori varla að viðurkenna að ég hef alla tíð verið lítið fyrir Íslendingasögurnar. Sennilega áhrif af ótímabærum lestri þeirra í barnaskóla.

Harpa Hreinsdóttir sagði...

Skil hvað þú átt við - sjálf var ég bólusett fyrir Njálu í fyrsta bekk í menntó og las hana ekki aftur fyrr en ég fór að kenna hana, sirka 25 árum síðar ;)

Ertu í íslensku í HÍ? (Spyr af því sonur minn var að byrja á fyrsta ári í íslensku núna í haust.)

Hafrún sagði...

Já, ég byrjaði í íslensku í HÍ í haust. Tók reyndar ekki nema einn áfanga núna en verð í fullu námi eftir áramót.
Ég man ekki efir stráknum enda lærði ég ekki að tengja saman nöfn og andlit nema á allra framhleypnasta fólki. Hann var örugglega ekki í þeim hópi :)

Harpa H sagði...

Nei, þetta er feimið ... Annars heitir hann Vífill Atlason (ég veit það eru ekki margir strákar og örugglega enginn með sama nafni og svo er þetta frekar svona huggulegur strákur, dökkhærður með dökk augu og dökkt litaraft ... ef það skyldi rifja eitthvað upp).

Flott hjá þér að fara í íslensku og vonandi gengur allt að óskum með fullt nám eftir áramót. (Mér skilst t.d. að kúrsinn hans Ármanns í miðaldabókmenntum sé frábær, hef heyrt mikið af honum látið. Tek fram að ég þekki Ármann ekki neitt - hef að vísu lesið kennslubókina í þessum kúrsi, sem er eftir hann, og fannst hún flott.)

Hafrún sagði...

Mig rámar í einn sem lýsingin gæti átt við. Ég man eftir honum úr umræðutímum. Eftir áramótin verð ég að leggja eyrun betur við ef menn kynna síg. Snúa mig svo úr hálsliðnum við að sjá framan í þau sem sitja aftast ;)