15. desember 2011

Tónleikadagur

Í dag var minn árlegi menningardagur. Ég fór og hlustaði á kórsöng í Hallgrímskirkju og þegar það er búið mega jólin koma fyrir mér. Svo ég fór þá líka og hélt litlu jólin með nokkrum pennaglöðum vinum mínum sem voru svo almennileg að bíða með að dreifa pökkunum þangað til ég var mætt og nú á ég Handbók um hugarfar kúa sem ég verð nú sennilega að geyma á stofuborðinu þangað til ég er búin með Glæsi og Seiðkonuna.

Ég stóð mig að því um helgina að nenna ekki að lesa bók eftir einn uppáhalds höfundinn og langa bara til að lesa spennandi krimma eða fantasíubókmenntir. Þegar ég hugsaði málið nánar komst ég að þeirri niðurstöðu að ég væri bara orðin mettuð af fagurbókmenntunum og bollaleggingum um djúpgreiningu og „grunngreiningu" í bili og nú væri kominn tími á að hvíla heilann aðeins. Ég rakst á reifara eftir Lee Child á safninu um leið og ég sótti Glæsi, kippti honum með mér, las hann fram á nótt og byrjaði daginn á að klára hann.

Þetta var fínasta afþreying, þokkalega spennandi og ekki illa skrifuð. Persónurnar staðalímyndir eins og vera ber í spennusögu því þar leitar maður að spennandi atburðarrás og flækju en ekki djúphugsuðum pælingum um sálarlíf sögupersónanna. Mér finnst reyndar að margir af skandinavísku krimmahöfundunum mættu draga úr þunglyndi, andfélagslegri hegðun, alkóhólísma og öðrum niðurdrepandi einkennum persónanna. Þetta getur verið ágætt í einni bók en veður þreytandi í heilu seríunum. (hér ætti auðvitað að vera dæmi en ég nenni ekki að tína þau til)
Mér fannst þó Child full fljótur á sér að færa lesandanum lausnina á því hver var skúrkurinn. Það hefði alveg mátt halda manni í spennu með það nokkrum köflum lengur.

Kannski verður maður svo líka jafn leiður á einfaranum ofurklára í bókum Child  eins og þunglyndum og  drykkfeldum Kurt Wallander í bókum Hennings Mankel, þegar maður er búinn með allar 15. Eins og er hef ég bara lesið Fimbulkaldur og gæti alveg hugsað mér að lesa fleiri.



Ég fann ekkert almennilegt sýnishorn af söngskrá söngkóra Domus Vox á netinu en rakst á þetta hér fyrir neðan og fannst raddirnar hljóma vel.

Engin ummæli: