1. desember 2011

1.desember 2011

Þá er það fullveldisdagurinn 1. des en þennan dag 1918 varð Ísland frjálst og fullvalda ríki. Þetta var stórt skref og dagurinn var lengi haldinn hátíðilegur eða fram til 1944, þegar 17. júní leysti hann af hólmi.

Í dag virðast fáir aðrir en stúdentar við Háskóla Íslands minnast þessa dags en þar eru hátíðahöld og ýmsir viðburðir í tilefni dagsins. Ég ætla ekki að fara og skammast mín í aðra röndina fyrir það en ég afsaka mig með að það séu verkefnaskil á morgun.

Stúdentar við Háskólann áttu upptökin að þvi að halda daginn hátiðlegann 1921, þá reyndar til að minnast Eggerts Ólafssonar og safna fé í minningarsjóð hans en hann var fæddur 1. desember 1726. (með fyrirvara um að þetta er fengið meðal annars af Wikipedia og sem er ekki tæk heimild amk ekki í ritgerðarvinnu og allar netheimildir er betra að taka með fyrirvara. Þeim ber illa saman). Stúdentar héldu daginn víðan hátíðlegan sem þjóðminningardag og sá siður breiddist síðan út um landið.

Í dag hlustaði ég á Bylgjuna meðan ég sat í umferðarteppu á Kringlumýrarbrautinni og nennti ekki að leita að annari stöð – útvarpið í bílnum er hálfónýtt og það skýrir þessa leti mína – þá komst ég að því að í dag er líka dagur íslenskrar tónlistar. Það heyrði ég oftar en einu sinni og oftar en tvisvar á Bylgunni en ekki orð um fullveldisdaginn. Sennilega gerum við okkur litla grein fyrir því í dag hvað þetta voru mikil tímamót þarna fyrir 93 árum.

Í dag eru þá væntanlega liðin 285 ár frá fæðingu Eggerts Ólafssonar.

Engin ummæli: