
Samt hef ég staðið mig að því að hrökkva við þegar ég í svefnrofunum rek fingurnar í hárið í hnakkanum á mér (þar er það síðast). Það er eitthvað ókennilega mjúkt höfuðið á koddanum þegar ég er á hægri leið frá svefni til vöku.
Annað er ekki að frétta af mínu krabbameinsástandi. Það verður ekki leitað að einu eða neinu því ef eitthvað er er það svo lítið að það er ógerningur að finna það. Eiginlega eru bara enga líkur á að forynjurnar séu á ferðinni í blóðrásinni.
Lyfjameðferð verður haldið áfram fram í júin og að öðru leiti en því að það þarf að fylgjast með mér í hjártaómskoðun háir þetta mér líti.
Ég mæti að vísu á þriggja vikna fresti og er tengd við lyfjaslöngu um lyfjabrunninn. Það tekur svona hálfan- til einn klukkutima. Passlegt til að lesa nokkra kafla en of stuttur timi til að leggja sig. Það liggur við að ég sakni 3 tíma lyfjagjaganna (ekki lyfjanna, bara tímans) þá var hægt að lesa og leggja sig góða stund. Mest sakna ég þó kaffisins á deildinni. Þar var alltaf boðið upp á uppáhellt kaffi úr hitakönnum og þó það væri ekki alltaf heitt og nýuppáhellt var það alvörukaffi. Svo tók einhver hagræðingarspekingur síg til og ákvað að setja upp kaffisjálfsala á deildina (kannski er þetta komið á þær allar) Því miður er það sem kemur úr viðkomandi vélum lítið skylt kaffi.
Tvisvar frá því sjálfsalinn var settur upp í sumar hef ég freistast til að fá mér „kaffi" úr honum og þar sem ég er innst inni í frekar viðkvæmu ástandi þegar ég fer á 11c/b koma tárin fram í augnum á mér þegar ég smakka þetta kaffilíki.
Stundum man ég eftir að hafa með mér kaffi en oft bjarga ég kaffifíkninni með þvi að kaupa kaffi í rauðakrossbúðinni.
Það er greinilega ekki mikið að plaga fólk sem getur kvartað undan spítalakaffi í löngu máli.
Ef það heyrist ekkert frá mér hérna á næstunni er það vegna þess að ég hef farið í Jólaköttinn. Í bókaköttinn fer ég ekki. Ég er búin að sjá það.
Ef ég væri betri fótosjoppari fengju þið afar snjallt og listrænt netkort frá mér en ég er lélegur fótósjoppari og þið fáið held ég ekkert kort.
Ég er búin að semja textann á pakkamiðana sem ég ætla að gefa á morgun. Þeir hljóða nokkurnveginn svona:
Kæri ljósvíkingur ég óska þér gleðilegra jóla og vonandi kemur gjöfin sem ég keypti handa þér í janúar að góðum notum. Geymdu pakkamiðann ég festi gjöfina við hann um leið og ég man hvar ég gekk frá henni. Jólakveðja Ásdís Hafrún.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli