Þá eru jólin langt gengin og nýtt ár riðið í hlað. Á þeim tímamótum er við hæfi að skrifa andríkan pistil með yfirliti um helstu atburði liðins ár. Þetta hugsa ég um hver áramót en er einfaldlega of löt til að leggjast í upprifjunarvinnu. Kötturinn er mér sammála.
Við sátum í stofuglugganum í dag ég og kötturinn og veltum þessum málum fyrir okkur. Það er að segja kötturinn var í glugganum en ég í sófanum og saman horfðum við út í morgunskímuna.
Við vorum sammála um að áramót væru í sjálfu sér engin sérstök timamót, þetta væri bara dagur sem væri ekket öðru vísi en aðrir. Nú er hvorki nýtt tungl né vetrarsólstöður og ekkert sem rýfur tilbreytingarleysi daganna. Bara þessi áramót sem eru mannana verk, verk sem kettinum er sama um nema þau snúi að suðu á fiski. Það var enginn fiskur soðinn í dag svo hann hélt áfram að horfa út um gluggann og velta því fyrir sér hvenær bleytan og kuldinn hopuðu nógu mikið til að hann geti gerst útlagi.
Ég hef grun um að þessi köttur sé enduholdgaður Eyvindur, ég veit ekki hvað varð af Höllu, hann leggst út um leið og vorar og kemur ekki í hús aftur fyrr en kuldinn herjar á hann á haustin. Ólíkt Eyvindi fer hann ekki á fjöll, hann lúskrast bara hérna í kring og skreppur heim í mat 4 til 5 sinnum á dag. Gleypir þá í sig nokkur korn og hleypur út aftur, ef hann kemur að lokuðum útidyrum situr hann við þær og grætur á syngjandi kattarmálýsku þar til einhver bregst við neyðarkallinu og opnar. Stundum finn ég hjá mér þörf fyrir að fara að dæmi hans. Stundum fer ég út, labba við sjóinn og langar ekki inn aftur. En ég hef ekki getu til að ganga tímunum saman og ég hef heldur enga útivinnu til að sinna. Núna er snjór og hálka svo ég fer lítið út nema þennan stutta spöl í og úr bílnum. Bölva svo gigtinni sem blossaði upp í desember. Einhverju þarf maður að bölva.
Á morgun ætla ég að keyra minn fjallabil vestur Reykjanesbrautina, leggja honum við afleggjarann niður að Lónakoti og rölta þangað niður eftir.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli