Ég er fantasíufan,  læt þess vegna ekki íslenska fantasíu fram hjá mér fara og bókasafnið bjargaði mér um eintak af Sögu eftirlifenda eftir Emil Hjörvar Petersen.  Sem betur fer, þetta er ekki bók sem ég hef áhuga á að eiga í bókaskápnum og ég bíð ekki í ofvæni eftir framhaldinu. Auðvitað kem ég samt til með að fylgjast með næstu tveimur bókum í þessum boðaða þríleik og ekki síst til að fylgjast með höfundinum.
Þetta er höfundur með feiki nóg hugmyndaflug og skapar hér margar góðar sögupersónur en eftir lesturinn líður mér eins og ég hafi verið að lesa handrit sem bæði ritstjóri og prófarkalesari eiga eftir að koma að.  Því miður.
Íslenskan er í molum, orðforðinn einhæfur og of miklu púðri eytt í ýmislegt sem mætti að skaðlausu missa sig og tækifærum til að leggja áherslu á ýmsa sérstöðu  sleppt í staðinn.
Í stað þess að leiða lesandann að öllu leyti inn í sjónarhorn Haðar –sem hefur reyndar ekki sjónarhorn heldur heyrnar og lyktarhorn– er byrjað, trekk í trekk að lýsa sögusviðinu sjónrænt. Einmitt þetta sjónarhornsleysi Haðar gefur gott tilefni til að leiða lesandann inn í hans heim. Ég sem lesandi hefði oft viljað fá að dvelja lengur við upplifanir  blinda ássins á umhverfinu þegar höfundur spillti því með margorðum útlitslýsingum sem skiptu svo sem engu máli í verkinu. Höfundur á að hafa ótal leiðir til að koma á framfæri við lesandann þeim sjónrænu upplýsingum sem hann telur að eigi erindi við hann. Til þess á ekki að þurfa lýsingu á smekk sögupersónu fyrir innanhússhönnun.  
Ég verð að viðurkenna að þegar ég var komin rétt fram yfir blaðsíðu 200 var mér farið að leiðast þófið og fór fljótlega eftir það að lesa bara aðra hverja blaðsíðu. Ég náði auðveldlega því sem máli skipti í söguþræðinum með því móti.
Vonandi verða næstu tvö bindin í þessu verki betur unnin því höfundur hefur allt til að bera til að skrifa góðar sögur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli