28. desember 2010

Nöldur

Af gömlum vana renndi ég í gegnum Fréttablaðið yfir morgunmatnum og eins og svo oft áður þegar ég les fjölmiðlana fór um mig hrollur. Aulahrollur er það víst kallað. Þjóð með slæma sjálfsmynd og mikla minnimáttarkennd þarf að tína flest til til að hreykja sér af. 

Það er sagt einkenni á fólki sem elst upp í vanvirkum fjölskyldum –t.d. við alkóhólisma– sé að, sem börn og síðar fullorði fólk sé stöðugt að leita eftir viðurkenningu. Þegar hún svo er látin í té þekkir viðkomandi hana ekki og heldur leitinni sífellt áfram. Ástæðan er sú að einstaklinginn skortir sjálfsvirðingu, fær enga viðurkenningu frá sjálfum sér. Gott sjálfsmat gerir viðurkenningu annara óþarfa.  Þetta heilkenni tröllríður umfjöllun fjölmiðla og umræðum á veraldarfefnum. Ætli það sé ekki hægt að fá góða fjölskyldumeðferð fyrir íslenska þjóð? 

Það sem við getum helst hreykt okkur af á árinu 2010 er að Íslendingur varð frægur. Hann varð tilefni til nýyrða smíði í erlendum tungumálum og hans er líka getið í annálum flestra erlendra fjölmiðla, já, með ljósmyndum meira að segja. Ekki má svo gleyma því að hann vakti svo mikinn áhuga að frægir rithöfundar eru farnir að fylgjast með íslenskum vefsíðum daglega vegna til að sjá hvort hann eða einhver nágranni hans ætlar að endurtaka leikinn. 

Við erum best í heimi  en útrásarvíkingarnir brugðust þjóðarstoltinu og við getum ekki lengur glott í kampinn þegar þeir launa Dönum maðkaða mjölið frá því forðum. Þá kom   Eyjafjallajökull og bjargaði málum, hann var sko alveg með þetta í ár! Já við getum hrósað okkur af íslenskri náttúru. Það mætti halda að við hefðum hannað hana sjálf af listhneigð og hyggjuviti!

Íbúar Haiti hljóta að vera afskaplega hreyknir af sínum náttúruhamförum, við Íslendingar hefðum allavega verið að springa úr þjóðarrembingi eftir sambærilega athygli frá umheiminum. 

Ef við verðum heppin gýs Katla næst, við fáum æðislega mikla athygli og verðum fræg aftur.

Engin ummæli: