7. desember 2010

Áskrifandinn

Í kæruleysiskasti ákvað ég að gerast áskrifandi að tímariti. Tölublaðið kostar 3.000 krónur, ég er eftir að reikna út kílóverðið sennilega er það svipað og á harðfisknum. Harðfiskur er þjóðlegur mælikvarði á verðmæti, hann er næringarríkur og hélt lífi í þjóðinni ásamt sauðakjöti og mysu. Svo, þegar íbúar skersins höfðu nóg af harðfiski og súrmat gáfu þeir sér tíma fyrir sagnaritun.  Nú nærumst við á transfitu og próteindufti en höldum áfram að skrifa, sum bara þokkalega vel.  

Ég fékk Stínu þetta tímarit um bókmenntir og listir inn um bréfalúguna í dag,  tbl. 2/2 2010. Guðbergur tekur hraustlega upp í sig í ávarpi til lesenda, ég held annars að hann sé kominn í gírinn „allt var betra áður fyrr“, sennilega lendum við öll í því þegar við eldumst. Gaman að þessu engu að síður eða einmitt þess vegna.  

Í samanburði [við gamla ameríska formið] er glæpasaga okkar tíma bull sem gerir lítið annað en að leysa árstarsöguvelluna af hólmi. Hún er skrípi með stimpil heimsbókmennta fengnum hjá blaðamannabjánum, fjölmiðlakjánum, gagnrýnendum og bókmenntafræingum sem reyna að drepa ritlistina með blaðri...(Guðbergur Bergsson)   (ef þarna eru stafsetningar eða innsláttarvillur dæmast þær á mína fingrafimi). Þegar ég las þetta áttaði ég mig á að ástarsögugeirinn í bókaútgáfu er nærri því horfinn. Nema svona ástarmorðsögur, ég meina, það er heilmikil ástarsaga í Karlar sem hata konur.
Hvernig er það annars með bókatitla, beygir maður eða beygir maður ekki. Í Körlum sem hata konur eða í Karlar sem hata konur? Hér er minni menntun greinilega ábótavant. 

Einhverntíma fyrir löngu, svo löngu að það gæti hafa gerst í fornu ævintýri, keypti ég mér ljóðabók eftir Matthías Johannessen. Mér fannst hún leiðinleg og hef ekki keypt eða nennt að lesa neitt eftir hann síðan. Lengi býr að fyrstu gerð segir einhverstaðar. Í þessu blessaða tímariti eru svo þrjú ljóð eftir Mattías og mér til undrunar gera þau mér bara hæfilega til geðs. Hef ég þroskast, eða Matthías? Kannski bæði.

 . . .
Dauðinn verndar vel sín leyndarmál
og vistar þau sem hvítan sinureyk
og þegar kulnar glóð við gamalt bál
og gleymskan snarkar enn við brunnin kveik

þá týnist hún, þín ævi i ösku og sót,

en lifið er þó einkum stefnumót
og oddhvasst hik við dauðans
                                 kompásnál.
Matthías Johannessen

Ég hef lesheimild á þetta blað þó ég sé í skáldsögubanni í heila viku. Já, og ævisögubanni og allrahanda sögubanni. Bara alveg bannfærð!

2 ummæli:

elina sagði...

hey.... er það ekki bara að hagræða staðreyndum ? Bann á allt nema skóladót !!!

Hafrún sagði...

Ekki ljóðabann. Ég þarf að lesa nokkur og senda þér.
OG veistu, nú ferð þú að kallast Elín H. Helga. H fyrir ..... gettu tvisvar.