29. nóvember 2010

Englalestur

Christopher Volgler segir að í sameiginlegt einkenni allra sagna sé að söguhetjunni sé sparkað nauðugri af stað úr sínum venjulega heimi út í ævintýrið eða atburðarrásina.

Í sögu Árna Þórarinssonar, Morgunengill er gömul kona sem rausar og rausar í anda heimsósómakvæðanna og mjakar Einari blaðamanni út af morgungöngu sinni. Síðan hefst sagan samkvæmt forskriftinni. Ég nennti ekki að kortleggja ferðina gegnum „ævintýrið“ til að skilgreina  mentora, verði eða aðra eðlisþætti í ferðalagi hetjunnar frekar.  Ég sneri mér frekar að því að klára „snöggvast“ bókina.

Trosnaður kaðall sem hlýtur að koma saman í hinn endann hugsaði ég einhverstaðar í lestrinum og reyndi að sjá fyrir mér hvernig allir þessir þræðir kæmu saman. Þeir hljóta að tengjast einhverstaðar hugsaði ég, en hvað ætli sé hægt að teygja það langt og ætli þetta séu ekki full margir þræðir. Ég hugsa enn um það, hefði ekki verið betra að sleppa einum örþræði?

Í lokin spunnust tveir þræðir saman, þriðji og fjórði voru alsendis óskyldir þeim, held ég, nema mér hafi yfirsést eitthvað þegar ég hraðlas.  Jú, ég var farin að hraðlesa ýmsar efnisgreinar, ég nenni ekki að lesa siðferðilegar vangaveltur um hrun, útrásarvíkinga og auðmenn Íslands. Ég hef ekki farið varhluta af þessari orðræðu í blöðum, á bloggsíðum, í ljósvakamiðlum og manna á milli og ég bara nenni ekki að lesa þetta líka í afþreyingarbókmenntum.

Rithöfundar mættu mín vegna nota bara setningar eins og „Alvarlegir ræddu þeir um siðferðisbresti athafnamanna meðan þeir biðu eftir, kaffinu, símanum, matnum eða hverju sem var“ og láta það duga. Bara ekki skrifa löng samtöl, eða stutt, um þessar vangaveltur og eitt svona er nóg á hverjum 150 blaðsíðum.

Það sjónarhorn hvernig óvarleg umræða og ofsi fullorðinna getur farið með sálarlíf barnanna í því árferði sem ríkir og hefur ríkt á Íslandi í rúm tvö ár er athyglisverðasti hluti sögunnar. Sá hluti vekur lesandann líka milklu frekar til umhugsunar um hörmulegar afleiðingar  íslenska hrunadansins en siðabollaleggingar söguhetjunnar.
Siðapostulinn gægist viða fram á blaðsíðum Morgunengils, mín vegna má spara hann í reyfurum. Að því frátöldu var þetta ágætis afþreying.

Já og ég verð eiginlega að taka það fram að höfundi tókst að koma mér verulega á óvart í lokapin  í þræði eitt, nei annars þræði tvö eða var það...? Nú er ég að tapa þræðinum. 

Engin ummæli: