7. október 2014

Tilfærðir laugardagar

Ef laugardagur líður án þess að markmiðum sé náð er rétt að færa laugardaginn. Þetta gæti sem best verið 1. liður 2. málsgreinar 7. efnisgreinar laga um lögbundna frídaga og skyldur landslýðs þá daga. Ef ég væri þingmaður skyldi ég leggja fram frumvarp þess efnis og skikka alla landsmenn sem vildu eiga frídag til þess að ganga á eitt fjall eða synda að lágmarki 50 metra eða  ganga i 20 mín. eða  hjóla; horfa í himininn, á sjóinn, gróðurinn eða börnin; lesa eitt ljóð, einn kafla í skáldsögu eða tala við fjölskyldumeðlim eða nágranna í 10 mín. án þess að hafa síma eða tölvu við hendina. Viðurlög við broti á þessum lagabálki væri frestun frídaga þar til markmiði væri náð. 

Ég er ekki þingmaður svo flutningur vikudaga eftir hentisemi  verður seint að landslögum -  samt finnst mér við ættum að taka upp gömlu heitin á vikudögunum og þessi pstill sé þá skrifaður á Þórsdegi á því herrans ári 2014. 

Ég var að koma úr tíma um stíla, efnisgreinar, málsniði, undirmálsskipaðar setningar, sagnorð í textum og sagnorðalausan texta. Það var ágætis hugvekja og meðal annars talað um upphaf Svartfugls þar sem  orðin "á því herrans ári" koma fyrir og þar með eru þau textatengsl orðin kýrskýr og ég get farið að snúa mér að því að lýsa útsýninu.

Úr nýrri viðbyggingu Háskólatorgs blasir Perlan við í allri sinni hátignarlegu dýrð og rósemd, handan við hana eru fjöllin sem afmarka útsýni höðfuðborgarbúa til austurs, Hengillinn gnæfir yfir, héðan frá virðist hann jafn stór Perlunni en hann veit sem er að hann hefur allan glæsileika fram yfir glerkúpulinn, þegar í návígi er komið (þetta er kjarnafærsla, að færa návígi fram yfir sagnorðin til að legggja áherslu á það. (návígið sko) segið svo bara að ég læri ekkert í tímum) og kærir sig kollóttann. Bláfjöllin teygja sig svo áfram til vesturs en draga halann með jörðu bak við Norrænahúsið svo þau virka ósköp niðurdreginn í annan endann

Ég vel mér vinnuaðstöðu eftir útsýni þessa daga sem ég sit yfir heimanáminu langt að heiman, vatnið heldur að mér á tvær hliðar þegar ég planta mér niður í Kaffitári á Þjóðminjasafni, hér blasir fjallahringurinn við þar sem byggingum sleppir. Haustlitirnir eru fallegir þessa dagana

PS
Þetta er slegið inn á leiðinlegt lyklaborð við óstöðuga nettengingu, yfirlestur og leiðréttingar verða látnar bíða betri tíma - sem kannski kemur aldrei, ég hef nefnilega tekið eftir því að stundum kemur þetta bráðum alls ekki - þangað til gildir fyrirvari um færslu þessarar færslu. Hvaða textatengsl hefur það við skyndilokun á fiskimiðum? Spyr sá sem ekki veit.

PS II

Ekkert skil ég í mér að vera ekki oftar á Landsbókasafni þar sem ég get sparkað af mér skónum og teygt sveittar tærnar undir borðið. Auðvitað með þeim fyrirvara að enginn sitji á móti mér.







Engin ummæli: