Skrifaðu er orð sem dynur á mér þessa dagana, skrifaðu á morgnana,
skrifaðu dagbók, skrifaðu niður orð, skrifaðu setningar, skrifaðu myndir, hugmyndir, hugarfóstur, hugarangur, -angist, -tóm. Og ég skrifa færslur á
facebook, það telst ekki með. Þess vegna helli ég mér upp á kaffi á
laugardagsmorgni og
sest niður við tölvuna til að sinna morgunskrifum. Fyrst þarf ég bara aðeins að athuga hvort
enn sé gos í gangi eða heimsendir í nánd. Það geri ég á þeim fréttamiðli sem Íslendingar treysta best,
RÚV.
RÚV treysti mér fyrir því þennan líðandi morgun
að heimurinn væri á hraðri leið til helvítis en að líkindum ekki í dag, ég
slyppi því ekki við að skrifa morgun andakt. (Þessi efnisgrein er
of stutt skv. fræðunum svo nú er fræðiuppreisn)
Í þessari síðustu efnisgrein voru tvö orð sem komu mér ókunnuglega fyrir sjónir á tölvuskjánum. Annað er viðtengingarháttur
þátíðar af sögninni sleppa sem lítur ókunnuglega út með y og er mér jafn
ókunnugur með i. Nú er
ég hætt að geta treyst á sjónminnið í stafsetningarmálum! Svo er það andakt, skrítið orð andakt, best að skrfa það niður í fallegu brúnu
bókina sem ég keypti mér til að skrifa í öll þessi orð sem skreyta íslenskt mál
og ég tek aldrei eftir hvað eru falleg. Ritfærnikennarinn minn fullyrti að sprungusveimur sé fallegt orð, orð með
töfrandi hljóm og ég er því reyndar sammála, hafði bara ekki áttað mig á því
fyrr. Það er sjálfsagt ástæðan fyrir því að tjáður kennari kennir en ég nem hjá honum.
Það er fleira einkennilegt svona fyrir
hádegi á laugardegi, til dæmis þessi langa leið frá gosfréttum Ríkisútvarpsins
á veraldarvefnum yfir í velmeinta ritæfingu. Ég er búin að skoða mbl.is sem leiddi
mig inn á slóðir Joan Rivers,
aliexpress.com, sem opnaðist
alveg óvænt, þar kíkti ég
samt eftir nýjum strigaskóm, amazone.com, facebook.com (auðvitað) Svo
skoðaði ég bloggsíðu
kennarans sem leiddi mig yfir á síðu sem býður upp á ólöglegt niðurhal. Já, þau eru ekki
öll góð áhrifin sem kennarar hafa á nemendur en samt er ég viðkomandi ævinlega þakklát fyrir að hafa kynnt mig og ákveðna
tónlistarmenn, nú hlusta ég á Chet Baker og Suede, Tom Waits heillaði
mig ekki en Oscar Peterson er nokkuð sem ég hef opin augun fyrir þegar ég fer í
vínilbúðirnar.
Notendur sjóræningjasíðunnar sem ég
skoðaði í morgun (og þetta er ekki viðurkenning á ólöglegu niðurhali, ég var að
kanna framboð á efni) er augljóslega ekki mikið sótt af hálf sextugum konum,
það sést á auglýsingunum. Ungar stúlkur sem dilluðu mjöðumunum, struku brjóst
og nærbuxnastrengi trufluðu þó einbeitingu mína þegar þær hringsnerust yst í
sjónsviðinu og það heltist yfir mig löngun til að beita tölvuskjáinn minn
líkamlegu ofbeldi. Virðulegur íslenskunemi sem er farinn að horfa til
ellilífeyrissins rekur þó ekki
hnefann í tölvuskjá enda ekki við blessaða tölvuna að sakast svo ég sneri mér
aftur að því að skrifa hluta af skylduskrifum dagsins. Mér liggur meira á hjarta, t.d. ætlaði ég
að eyða löngu máli í að tjá mig um minnisbókablæti mitt en það verður að bíða
betri tíma.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli