Ég hef komist að þeirri augljósu niðurstöðu að ráðleggingar um morgunskrif henta ekki nemendum sem þurfa að mæta klukkan 8:20 í fyrsta tíma. Ekki nema þeir séu komnir á þann aldur að vakna klukkan fimm á morgnana, er það ekki annars aldursbundið? Ungabörn og gamalmenni vakna á þeim tíma. Þess vegna er ég í tilraunastarfsemi með laugardagsskrif á þessari blessaðri bloggsíðu minni. Dagleg skrif fara fram í minnisbókum, stílabókum og ritvinnslukerfum og tilheyra öll náminu. Ég steig meira að segja út fyrir þægindarammann og keypti mér tvær ólínustrikaðar verkefnabækur. Þær hafa þann kost að það er þægilegt að teikna í þær mengi og hugarkort og krota ólínulega í þær en hitt er annað mál hvort ég get nokkurntíma komist fram úr skriftinni í þeim. Tilgangurinn með því að skrifa glósur sem ég get ekki lesið er frekar óljós.
Neitunarviðskeytið ó- á undan línuleg verður að ólínuleg og ef til væri stíll eða hegðun kennd við Línu gæti ó-línuleg hegðun verið andstæða Línu hegðunar. Eða hvað? Svo er það hún Ólína, þá væri ólínulegt líkt Ólínu? Nú er ekki ólíklegt að ég sé komin í ógöngur orðaleikja og orðaflækja og mál að linni.
Laugardagsmorgnar eiga að byrja á undirstöðugóðum morgunverði, síðan á að hella upp á kaffi, setjast við töluna, skrifa einn bloggpistil, fara yfir tölvupóst sem hefur safnast saman síðustu tvo daga og sinna síðan vinnu og námi. Og í þessari röð, en eins og fyrri daginn gengu áætlanir ekki eftir.
Fréttablaðið var ekki á listanum, það lenti inn á hann óvart í morgun, kaffið var drukkið tölvulaust og svo sneri ég mér að tölvupósti á undan bloggskrifum – og bölvaði hátt og í hljóði. Nei ég fékk ekki slæmar fréttir, ég fæ bara ógrynni af tölvupósti (kemur neitunarviðskeytið eina ferðina enn). Einu sinni skráði ég mig í Núið bara til að fá annað slagið afslátt af litun og plokkun fyrir okkur mæðgur. Ef ég slysast til að opna Amazon fæ ég tölvupóst frá þeim nokkrum tímum seinna og næstu daga á eftir, Aliexpress sendir mér líka póst og ég sem féll í þá freistni að leita að rúmfötum með 3D mynstri í gær og endað svo í trjá og blómafræjum. Sem minnir mig á að kínverjar þykjast geta ræktað bláar vatnsmelónur en það freistaði mín ekki að kaupa fræ af þeim, bláar rósir höfðuðu meira til mín. Svo er það Amnesty, Endurmenntun Háskólans, Endurmenntun Tækniskólans, Ljósið, Germanwings, Icelandari, N1, Harpan, Vildarklúbbur Eymundsson, ljósmyndari,is og, og ... ! Í vinnupóstinum má sjá Nígeríubréf, auglýsingar frá Kína um hinar og þessar vörur sem fyrirtækið "líklega" gæti notað, Moggaklúbburinn, Icelandair (jamm, tvisvar) og Ríkisskattstjóri minnir reglulega á að gæta að tímamörkum stórgreiðslukerfis bankanna, svo fátt eitt sé talið. Ég gæti haldið áfram að bæta við listann en ætla ekki að ergja mig á því enda er þetta blogg ekki hugsað sem staðgengill legubekksins á sálfræðistofum (þessi hugarsýn kemur úr bandarískum sjónvarpsþáttum, legubekkurinn sko).
Auðvitað er þetta sjálfsskaparvíti, ég er dugleg að skrá mig í hitt og þetta og gæti auðveldlega sett ruslpóstsíu á ýmsa þessara sendanda en þar sem ég fæ stundum "löglegan" póst frá fyrirbærum eins og Amazon og Aliexpress er erfitt að sía þau beint í ruslpóstinn. Aðrir eiga heima þar og þessi tveggja daga fjarvera mín frá vinnutölvunni sannfærir mig um að nú þurfi ég að taka til hendinni og sía úr.
Aftur að áætlunum, ég er alvarlega að hugsa um að skrá mig á námstækninámskeið en gera óáætlanir fram að þeim tíma.
Ég held að öll mín svefnvandamál yrðu úr sögunni með svona rúmfötum, Jólagjöfin í ár? Nei, til að eignast svona þarf ég bæði stærra rúm og sæng. |
Engin ummæli:
Skrifa ummæli