Það er ýmislegt sem ég væri tibún að eyða tíma mínu í en einhvern veginn enda ég með að eyða honum á facebook í stað þess að sinna áhugaverðari málum. Stundum finnst mér að ég gæti verið betri manneskja en ég er, en svo gleymi ég því aftur enda með áratugalanga æfingu í afneitun.
Og hvers vegna er ég að tala um það? Nú, einfaldlega vegna þess að þegar ég keyrði í vinnuna í morgun flugu ótal hugsanir sem mig langaði til að festa á blað, eða skjá, um kollinn á mér en ég er ekki vön að keyra út í kant og rífa upp stílabók. Þess í stað sest ég niður við tölvuna þegar ég kem í vinnu, eða heim, og fer inn á facebook. Dapurlegt, ekki satt?
Á laugardag ætla ég að keyra tæpa 600 kílómetra, ég veit að ég verð slæm í skrokknum að leiðarlokum en samt er ég farin að hlakka til þess að vera ein með hugsunum mínum í marga klukkutíma. Ætli ég verði ekki bara með stílabókina og penna í farþegasætinu.
Ójá, sumardvölinni er að ljúka og skólalífið að taka við.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli