29. ágúst 2014

Á þessu líðandi sumri eyddi ég nokkrum klukkutímum í að þrasa við mann sem ég átti ekki, stöðu minnar vegna, að þrasa við. Hann var gestur, ég var gestgjafi sem ekki átti að þrasa. Við vorum ósammála um ansi margt, en því miður liggur mér við að segja, höfðum við fundið nokkur atrið sem við vorum innilega sammála um í lok veru hans í skálanum „mínum“. Eitt af því sem við vorum sammála um var að ef fólk eyddi minni tíma í að skoða sniðug kisumyndbönd á facebook gætum við sinnt ýmsum áhugaverðum þjóðþrifamálum, s.s. að lesa heimildir og viða að okkur efni í málefnalega gagnrýni á framkvæmdir sem við værum ósátt við.  
Það er ýmislegt sem ég væri tibún að eyða tíma mínu í en einhvern veginn enda ég með að eyða honum á facebook í stað þess að sinna áhugaverðari málum. Stundum finnst mér að ég gæti verið betri manneskja en ég er, en svo gleymi ég því aftur enda með áratugalanga æfingu í afneitun. 
Og hvers vegna er ég að tala um það? Nú, einfaldlega vegna þess að þegar ég keyrði í vinnuna í morgun flugu ótal hugsanir sem mig langaði til að festa á blað, eða skjá, um kollinn á mér en ég er ekki vön að keyra út í kant og rífa upp stílabók. Þess í stað sest ég niður við tölvuna þegar ég kem í vinnu, eða heim, og fer inn á facebook. Dapurlegt,  ekki satt?
 
Á laugardag ætla ég að keyra tæpa 600 kílómetra, ég veit að ég verð slæm í skrokknum að leiðarlokum en samt er ég farin að hlakka til þess að vera ein með hugsunum mínum í marga klukkutíma. Ætli ég verði ekki bara með stílabókina og penna í farþegasætinu.
 
Ójá, sumardvölinni er að ljúka og skólalífið að taka við.
 

Engin ummæli: