22. apríl 2014

„Sólin kom upp í austri í gær“

„og settist í vestri“ sagði Thor Vilhálmsson á göngu sinn um Jakobsveginn árið 2005. Svo bætti hann því við að það gerði hún líka í dag og við það má bæta að það geri hún líka á morgun. 
Eiginlega er ekki meira um það að segja, vorönn 2014 er lokið, í haust byrjar önnur önn með nýjum námskeiðum. Ef guðirnir lofa verð ég þar, spennt að læra eitthvað nýtt og fyrr en varir óþreyjufull eftir að ljúka síðustu verkefnaskilum og prófum. Síðan, eftir ár, verður BA náminu mínu lokið og ég er strax komin með aðskilnaðarkvíða, farin að sakna háskólalífsins, ekki félagslífsins því það er ekkert, bara verunnar í kaffistofu Árnagarðs, spjallsins við samnemendur og verkefnaskilum, þess að vera neydd til að lesa góðar bækur og leiðinlegar, en áhugaverðar, fræðigreinar. Þess vegna er ég ákveðin í að sækja um í meistaranámi á næsta ári, láta reyna á það hvort ég kemst í það sem mig langar í.  
Af þessu nostalgíukasti mínu má ráða að skólanum sé lokið í bili, prófin búin og auðn og tóm framm undan, hversdagslífið, vinnan, sumarfíið, göngurnar, fjöllin, sauðburður og garðrækt og svo ætla ég að skreppa til Noregs í nokkra daga. Ljúft? Já, en eitthvað tómarúm eins og er. Það gengur yfir.
Svo horfði ég áðan á Thor ganga Jakobsveginn. Ég öfundaði hann, ekki af því að vera komin yfir móðuna miklu, heldur fyrir öll fallegu orðin sem hann virtist geta hrist svo áreynslulaust fram úr þessari flóknu geymslu sem mannshugurinn er. 
Kannski ætti ég að horfa aftur, vera með minnisbók og stela orðunum hans Thors, ganga svo Jakobsveginn, ekki í fótspor Jakobs, heldur Thors. Mér finnst það verðugt viðfangsefni. 

 

Engin ummæli: