17. janúar 2014

Í órökréttu samhengi

Af einhverjum ástæðum er ég fráhverf facebook þessa dagana. Ekki það að ég opni hana ekki, skoði hvort þessir námshópar mínir eru að tjá sig þar, nú eða bara vinir og vandamenn en ég nenni ekki að leggja orði í belg. Sem er auðvitað eins gott því ég móðga engan með óviðurkvæmilegum athugasemdum á meðan. Þess vegna laumaði ég mér hér inn til að tjá mig eftir að hafa forðast síðuna vegna slæmrar samvisku í meira en mánuð.

Ég las Fréttablaðið í kvöld, svolítið seint að vísu en seint er betra en aldrei og ég hef stundum lesið eldri fréttir en það, og síðan hef ég verið þungt hugsi. Já, verulega hugsandi yfir hæfni minni eða öllu heldur hæfnisleysi til að takast á við lífið þegar ég útskrifaðist úr gaggó í gamla daga. 
Ég hef svo sannarlega efasemdir um að ég hafi verið fær um að tjá hugsanir mínar í rökréttu samhengi, frosin inn að beini af feimni. Svo er auðvitað allt hitt. Ég er viss um að ég gerði mér enga grein fyrir því hvernig ég gæti  nýtt mér mínar sterku hliðar á skapandi hátt og ég efast um að ég hafi haft getu til að tá mig á einfaldan hátt á erlendum tungumálum. Þetta síðasta segir nú kannski meira um kennsluna sem ég fékk í skólakerfinu en hæfileika mína til að læra tungumál en hefur líka snertiflöt við klausuna um skýra sjálfsmynd. Ég hafði kýrskýra sjálfsmynd, ekki mjög góða, og hluti af henni var að ég gæti ekki lært tungumál. 
Sjálfsmynd mín hefur sem betur fer breyst talsvert á þessum árum sem eru liðin. Nú held ég til dæmis að ég hefði getað lært tungumál eins og hver annar hefði ég fengið kennslu á öllum skólastigum í öllum þeim skólum sem ég var í. Kannski get ég líka tjáð hugsanir mínar í rökréttu samhengi, mér finnst bara skemmtilegra að tjá þær í því órökrétta. 

En að nútímanemendum, sem flestir fá betri kennslu en ég fékk á ýmsum sviðum og eru þar að auki eldri en ég var þegar ég kláraði gagnfræðaskólann í hitteðfyrra og við það er nú kannski þessi umsagnarlisti miðaður. Hvar er mælikvarðinn sem á að mæla þau atriði sem Mennta og menningarmálaráðuneytið telur að þau eigi að fá umsögn um þegar þau útskrifast úr framhaldsskóla? 
Hafa starfsmenn ráðuneytisins hugsað þetta mál eða ætla þeir bara að senda kennurum, væntanlega þá umsjónarkennurum, lista yfir þau atrið sem á að gefa umsögn um og síðan verður það bara huglægt mat kennara á hverjum nemanda hvort hann getur átt jákvæð og uppbyggileg samskipti við annað fólk.
Hvað með nemendur sem verða fyrir einelti í skóla, eru hafðir útundan eins og það hét í minni æsku, getar þeir átt jákvæð og uppbyggileg samskipti (það er reyndar innsláttarvilla í þessu á vísi.is en það fyrirgefst, ég geri ófáar sjálf) við annað fólk? Eða getur annað fólk ekki átt jákvæð og uppbyggileg samskipti við þá. 
Hvað um og hvað um... ? Já, nemandann sem getur ekki átt jákvæði og uppbyggileg samskipti við ákveðna kennara en á ekki í samskiptavandræðum við aðra. Á að gefa honum „staðið“ í þessum þætti eða „50%“ eða bara „fall“? 
Þetta mat hljómar satt best að segja eins og illa ígrunduð stofnanahugmynd sem hefur aldrei verið skortur á um dagana. 
En aftur að sjálfri mér, ég er svo sjálfhverf, ég reyni  að sjá það yfir mér hver áhrif það hefði haft að rölta út með umsögn um þessi atrið á einkunablaðinu mínu í „denn“ en ég ætla að spara mér að spinna þann harmleik upp í þetta skiptið. Kannski nota ég hann bara í smásögu í þessu blessaða smásögunámskeiði sem ég er í. 
Púff þar mundi ég það, ég þarf að skila verkefni á sunnudagskvöldið og lesa 350 blaðsíður í vikunni. Nei annars, ég er búin með 175 af þeim, Íslenskur aðall er frágenginn. Alveg frábær bók annars, ég er að jafna mig á Þórbergsógeðinu sem helltist í mig þegar ég las hluta af þessari „sögu“ löngu áður en ég hafði þroska til.   

Listi yfir umsagnaratrið Mennta og menningarmálaráðuneytis. (hvers vegna ósköpnum er ekki bara taðað um „hann nemandann“ og þessum hann/hún skástrikum sleppt!) 

Hann/hún getur tjáð hugsanir sínar í rökréttu samhengi.
Hann/hún getur tjáð sig á einfaldan hátt á erlendum tungumálum. 
Hann/hún getur átt jákvæð og uppbyggilega samskipti og samstarf við annað fólk.
Hann/hún er verklega sjálfbjarga í daglegu lífi. 
Hann/hún hefur skýra sjálfsmynd. 
Hann/hún tekur afstöðu til eigin velferðar, líkamlegrar og andlegrar. 
Gerir sér grein fyrir hvernig hann/hún getur nýtt sér sínar sterku hliðar á skapandi hátt. 
Hann/hún ber virðingu fyrir lífsgildum, mannréttindum og jafnrétti.
Hann/hún getur verið virkur og ábyrgur borgari í lýðræðislegu nær- og fjærsamfélagi

1 ummæli:

Unknown sagði...
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.