25. nóvember 2013

Og tíminn líður

ósköp hratt og ég næ aldrei í skottið á honum. Ég var nú samt búin að lofa því að blogga hér annað slagið og svo lofaði ég sjálfri mér líka um daginn að fara ekki að sofa fyrr en ég væri búin að skrifa 4-500 orð. Það gekk ágætlega. Að vísu fór ég ekki að sofa fyrr en klukkan hálf tvö fyrsta kvöldið sem ég lofaði þessu og hálf þrjú næstu tvö kvöld en þá var ég líka búin með ritgerðina/söguna sem ég var að skrifa. Mér fannst þetta svo bráðsnjöll hugmynd að ég hugsaði með mér að ég skyldi halda þessu áfram og fara aldrei að sofa fyrr en ég væri búin að skrifa eitthvað smávegis. Ekki endilega 500 orð í ritgerð, bara eitthvað.
Þetta er liður í að efna það loforð, í gær skrifaði ég með blíanti á blað, á morgun kannski bara fáein orð í móðuna á glugganum á baðinu þegar ég er búin í sturtu en ég skrifa samt smávegis. Það verður fróðlegt að sjá hvað ég held þetta lengi út.

Annars var ég búin að lofa því að setja hér inn mitt fegursta orð íslenskrar tungu. Það er hægt að velja sér orð án þess að skila þeim inn í opinbera samkeppni og nú þegar allir búnir að gleyma þessari bessaðri keppni og þjóðin hefur jafnað sig á sykursjokkinu eftir kosninguna er best að ég velji mitt orð.

Orðið húm [hum] samanstendur af  raddbandamæltu önghljóði, nálægu, uppmæltu og kringdu sérhljóði og tvívaramæltu rödduðu nefhljóði.
Mér finnst þetta góð samsetning, ú er bara annað af kringdum uppmæltum sérhljóðum málsins, h er eina raddbandamælta hljóðið íslenskunnar (ef mínar kennslubækur ljúga ekki)  og svo eru bara tvö nefnmælt hljóðön í íslensku og m er annað þeirra.
Orðið er hæfilega stutt og þjált til að nota það bæði sem viðskeyti og forskeyti, kvöld-húm, vetrar-húm, nætur-húm, húm-blár, húm-dökkur, húm-skyggður og húm-blær svo fátt eitt sé talið.

Merking orðsins er síðan afskaplega hugljúf, það merkir tímann þegar hvorki er dagur eða nótt, myrkur eða birta, heldur hálfdimmt. Tímabilið þegar næturmyrkrið er í þann veginn að skella á og það þarf að  standa upp frá bókinni og kveikja ljósin.
Það á við tímann þegar dagurinn tvístígur á bæjarhlaðinu og bíður eftir að hverfa vestur yfir fjöllin en nóttin þokar sér inn yfir hafsbrún í austri og rær inn fjörðinn með hægum áratökum.
Þá er rétti tíminn til að hætta í útverkunum, fara inn og bíða eftir einhverju góðu. Þetta er birtan fyrir heitt kakó og brauð með osti.

  

Engin ummæli: