Ég er alltaf að lofa sjálfri mér einhverju og stend aldrei við það, mér gengur betur að efna loforð sem ég gef öðrum. Í morgun hundskaðist nú samt í ræktina og hét því að taka til í eldhúsinu þegar ég kæmi heim – mér reynist oft erfitt að hafa röð og reglu á hlutunum og sérstaklega á þriðjudaögum og miðvikudögum eins og stundaskráin er þessa önnina – þegar ég kom heim stóð ég við það og svo bætti ég við loforði um að blogga. Nú er það efnt líka, ég er í gífurlegri framför.
Við Snúður fórum saman í berjamó í sumar |
Þegar maður hefur lítið að segja gott að leiða athyglina frá því með því að myndskreyta mál sitt og meðan ég leitaði að athyglisdreifimyndum renndi ég yfir myndirnar mínar frá liðnu sumri. Ég sá að sumarið var bara harla gott þrátt fyrir þráláta gigtarverki fyrripart sumars. Ég er orðin skammarlega löt við að taka myndir, ég fer auðvitað ekki spön frá rassi myndavélarlaus en smelli sjaldan af.
Ég hitti unga stúlku um dagin sem sagðist hafa verið svo heppin að týna símanum sínum, þá fór hún að nota myndavélina og myndar nú grimmt fyrir Stúdentablaðið. Ég fékk nýjan síma í sumar, tek á hann myndir og set beint inn á fésbókina, kannski ég ætti að leggja honum og nota þann gamla með lélegu myndavélinni.
Ég á eftir að fara yfir og taka til í öllum myndum ársins, gallinn við nútíma myndavélar er nefnilega sá að maður þarf að taka til, henda og helst að klippa og leiðrétta liti og skerpu aðeins. Þessi galli er auðvitað helsti kostur alvöru myndavéla líka og ég er að hugsa um að gleðjast yfir því að geta unnið með myndirnar mínar í til þess gerðum forritum og gefa sjálfri mér eitt loforðið í viðbót, að fara gegnum myndahauginn í jólafríinu.
Ég skrapp í skálavörslu, bar sjálfa mig og hluta af farangrinum mínum
yfir ófærur og ár og þóttist góð meðan þær tvær báru timbrið í pallinn
og hluta af mínum farangri.
|
Næst: Mitt fegursta orð
Engin ummæli:
Skrifa ummæli