Þessa dagana tel ég farþega, það eru frekar fáir á ferðinni á leiðinni minni sem veldur því að ég get setið og látið hugann reika um alla heimsins króka og kima að mestu leyti ótrufluð af vinnunni. Í dag hrökk ég upp úr mínum þungu þönkum við að ungur maður í sætinu fyrir aftan mig taldi hástöfum og hann var kominn upp í fimm þegar ég áttaði mig á að vagninn var að fyllast af fólki. Hann sagðist vera að hjálpa mér að telja og ég sættist á það að hann hefði talið rétt – alla sex farþegana sem komu inn.
Ég efast um að blessaður drengurinn viti hvað hann sparaði mér mikla útreikninga með þessari framtakssemi sinni en kann honum bestu þakkir fyrir greiðann. Í svona tilvikum þarf maður nefnilega að telja í vagninum, leggja saman og draga frá það sem búið er að skrá og fá rétta summu út úr jöfnunni.
Það er síðasti talningardagurinn hjá mér á föstudag og mikið lifandis skelfing verð ég feginn þegar hann verður búinn. Samt býst ég nú við að ég láti hafa mig í þetta aftur á næsta ári.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli