28. apríl 2013

Slóði

Ég var að skrifa ritgerð. Ritgerð um verk manns sem sagðist (í léttri snörun) vera erkitýpa íroníunnar og  sjúkdómurinn væri ólæknandi. Ég er að hugsa um að gera þessi orð hans að mínum en skipta íroníunni út fyrir slóða. „Ég er ólæknandi erkitýpa slóðans.“ Hljómar vel.

Ég skilaði ritgerð sólahring of seint, verð lækkuð um 5% fyrir vikið sem er sök sér. Það sem angrar mig meira er að ég hefði getað verið búin að þessu og að ég hefði getað gert betur. En gert er gert og svo tóks mér líka að muna eftir því að fara á kjörstað en gleyma öllu um kosningar þar fyrir utan, sem er voða ljúft.
Nú  tauta ég því að hafa ekki sparað mér að horfa á Martin lækni eða Neyðarvaktina, það hefði verið svo ljómandi þægileg afslöppun fyrir svefninn að horfa á þá núna á leigunni. Miklu þægilegri en „Talin hafa verið 29754 atkvæði, 29754 atkvæði og skiptast þau þannig. . .“

Svo af því leiðir mínar og Baudelaires skilja nú að sinni:

–Hvern elskar þú heitast, dularfulli förumaður: föður þinn, móður þína, systur eða bróður?
–Ég á engan föður, enga móður, hvorki systur né bróður.
–Vini þína?
–Fram til þessa dags hef ég ekki fengið botn í merkingu orðsins sem þú nefndir.
–Land þitt?
–Mér er ókunnugt á hvaða breiddarbaug það liggur.
–Fegurðina?
–Feginn vildi ég elska hana, hina guðdómlegu eilífu.
–Peninga?
–Ég fyrirlít þá eins og þið guð.
–Hvað elskarðu þá undarlegi förumaður?
–Ég elska skýin - skýin sem hjá fara ... þarna í fjarska ... þessi yndislegu ský.
(Þýð. Einar Bragi)

Hvar er nú íronían í þessu ljóði?

Annars man ég það þá allt í einu að ég á ólesna ljóðabók eftir Einar Braga og sennilega er kominn tími til að breyta því ástandi í „lesna“ ljóðabók.



2 ummæli:

ellan sagði...

hmmm.... hljómar ekkert sérstaklega skemm.tilegt

Nafnlaus sagði...

Ekkert af þessu?
Ég sem hélt að ég væri svo skemmtileg.