Þennan annan sumardag, og nú best aðsetja þann fyrirvara að ég held ekki að sumarið sé komið heldur er sumardagurinn fyrsti leifar af fornu tímatali Íslendinga sem töldu árið skiptast í tvö misseri, sumar- og vetrarmisseri og fyrsti dagurinn í sumri var haldinn hátíðlegur rétt eins og nýjarsdagur í dag. En nóg um það, ég er búin að flytja þessa hugvekju árlega fyrir vini og vandamenn hér, munnlega og á fésbókinni (sem enn er lokuð) í nokkur ár og sleppi því þess vegna nú. En þennan annan sumardag sit ég, altekin frestunaráráttu, og dáist að norsku veðurstofunni. Ég er nefnilega búin að fara þar inn og skoða veðrið á ýmsum stöðum á Íslandi og svo bæði í Tysnes og Frøya. Þegar ég segi skoða á ég við að yr.no er með tengla á 2-3 vefmyndavélar á eða nálægt hverjum stað svo ég sé í beinni útsendingu hvernig veðrið er. Þetta er auðvitað mikilvægt atriði þegar umfjöllun um íroníu fransks 19. aldar skálds bíður mín á skrifborðinu en það er alveg spurning hvað er hægt að treina sér það lengi.
Þar fyrir utan er bara allt gott að frétta, ég ét of mikið, hreyfi mig of lítið, er komin með skólaleiða og nenni ekki að læra fyrir próf, að mér læðist beygur annað slagið, svona við lítilfjörleg tilefni og ég fer að hugsa um tölfræði.
Í dag ætla ég að sækja berjarunnana sem ég pantaði mér í vetur í bjartsýniskasti og veit ekki hvar ég á að setja niður en það reddast.
En bráðum kemur sumar og ef ég verð heppin get ég notið þessa útsýnis í Lónsöræfunum í júlí. |
Engin ummæli:
Skrifa ummæli