19. apríl 2013

Í vestri sólin hvílir undir hvolfsins rekkjuþaki


Baudelaire er mitt aðal áhugamál þessa dagana og ég rakst á þessa þýðingu á Recueillement í Eimreiðinni frá 1928.  Ljóðið er lauslega þýtt af  Þ.Þ og eiginlega er ég ómöguleg manneskja að vita ekki hver þessi Þ.Þ. var  (ég býst þó við að þau ómögulegheit gangi yfir eins og annað). 



RECUEILLEMENT.
Lauslega þýtt af Þ.Þ.

Ó, vertu róleg, sorg mín, láttu sefast,
því sjáðu: kvöldsins myrkur færist nær,
og borgin í þess arma lætur vefast;
þar ýmist lífið grætur eða hlær.

En meðan þjóð í faðma fallast lætur
flekandi girnda og iðrun vekur sér
í nautnanna glaumi, langar, leiðar nætur,
— ó, leið mig, sorg, og dveljum alein hér

lífinu fjarri. Liðnu árin sjáum
í lofti skrýðast feldum rökkurbláum,
brosandi iðrun svífa yfir sæ;

sólina hverfa undir aftanroða;
um austurloftin nótt í þýðum blæ
þögula líða, líkt og dimman boða.




Nostalgía, vottur af rómantík, ádeila og kaldhæðni. Eða hvað? 
Í þýðingu Yngva Jóhannessonar hljómar þetta svona: 

Myndin er fengin að láni af
http://louveseule.centerblog.net
XIII Hugleiðing
Ó, sorg  mín, ver nú leiðitöm og lát þér verða rótt. 
Þú löngum þráðir kvöld, og nú er það komið hér.
 
Um borgina streymir móða húms, þegar birtan horfin er,
 

og ber til sumra friðinn en öðrum kvíðans nótt.

Og meðan Jörfagleðin í heimi hart er sótt
af heimskum lýð, sem nautnasvipan miskunnarlaust ber,
 
og iðrunarinnar glóðum hann safnar að höfði sér,
 

ó, sorg mín, tak í hönd mína, komum héðan fljótt

og langt í burt. Sjá opnar svalir himnanna í hæðum, 
þar hallast liðnu árin fram í sínum gömlu klæðum,
 

og söknuðirnn rís úr djúpi brosandi að baki.

Í vestri sólin hvílir undir hvolfsins rekkjuþaki
en hlustaðu með mér, kæra, eftir mjúku fótataki,
 

er nóttin kemur austan að í rökkurreifa slæðum. 



 Og úr því ég er nú byrjuð að demba Baudulaire hér inn er ekki úr vegi að hafa ljóðið með á frummálinu. 

Recueillement

Sois sage, ô ma Douleur, et tiens-toi plus tranquille.
Tu réclamais le Soir; il descend; le voici:
Une atmosphère obscure enveloppe la ville,
Aux uns portant la paix, aux autres le souci. 


Pendant que des mortels la multitude vile,
Sous le fouet du Plaisir, ce bourreau sans merci,
Va cueillir des remords dans la fête servile,
Ma Douleur, donne-moi la main; viens par ici, 


Loin d'eux. Vois se pencher les défuntes Années,
Sur les balcons du ciel, en robes surannées;
Surgir du fond des eaux le Regret souriant; 

Le soleil moribond s'endormir sous une arche,
Et, comme un long linceul traînant à l'Orient,
Entends, ma chère, entends la douce Nuit qui marche. 


Ég er svolítið að velta vöngum yfir þessum mismunandi þýðingum en því miður skil ég ekki frönsku nema með aðstoð Google translate og mér sýnist á öllu að bókmenntaþýðingar þess ágæta forrits séu ekki alveg ásættanlegar, – ég næ fínu sambandi við viðskiptatexta með því.  Með samanburði á þessum tveimur íslensku þýðingum og einni enskri þykist ég sjá að báðir þýðendurnir hafi náð andblæ ljóðsins nokkuð vel  og læt þar við sitja. Mitt aðal áhugamál þessa dagana er að greina íroníuna í einu og aðeins einu ljóði Baudelairs og það reynist mér alveg nógu stór biti að kyngja. 



Engin ummæli: