17. apríl 2013

Henda lyklinum?

Að læsa einhverju og henda lyklinum frá sér í djúpið þar sem enginn nær til hans er,  að mig minnir, dramatískt ævintýraminni. Ég hef þó fyrirvara á þeirri fullyrðingu því ég hef svo oft rekið mig á hvað minni mitt er óáreiðanlegt og ég er ekki tilbúin ti lað leggjast í neina viðamikla rannsóknarvinnu til að fá þennan grun minn staðfestann. Í nútímanum gengur auðvitað ekki svona dramatík upp því það þarf bara eitt símtal til að fá neyðarþjónustu við lásaopnun. Þar fyrir utan eigum við engar læstar hirslur fyrir gersemarnar okkar, við eigum bara lykilorð og neyðarþjónusta fyrir lykilorð er líka til (hún dugir samt ekki alltaf, ég hef reynslu af því).

Nútímaútfærsla á þessu minni væri þá væntanlega að breyta lykilorðinu sínu og netfanginu sem er skráð  fyrir neyðaraðstoð, skrifa hvoru tveggja á miða og láta vindinn feykja honum út í hafsauga. Dramatíkina mætti auðvitað auka svolítið með því að brenna miðann fyrst og láta norðanvindinn bera öskuna af Krísuvíkurbjarginu suður í höfin. (ekki of langt samt). 

Í suður auðvitað vegna þess að ef ég tæki
það í mig að leita lykilorðsins eins og ævintýraperónurnar leituðu sinna lausna um langan veg –Hver man ekki eftir löngu ferðalagi prinsins í ævintýrinum um prinsessuna sem skrifaði á rósablöð? – væri miklu notalegra að ferðast suður á bóginn en í norður. 

Ég er ístöðulaus einstaklingur sem stenst ekki mátið að rápa um netið þegar ég sit ein heima frá morgni til kvölds og sakna mannlegra samvista. Þess vegna er ég að hugsa um að fyrirfara facebook aðganginum mínum með þessum hætti. En  Facebook er  mér ómissandi samskipta tæki. Þar fæ ég fundarboð og ótal skilaboð frá fólki sem ég þarf að hitta og tala við bæði um nám og tómstundir svo ég hugsa að ég verði ekki alveg svona róttæk. Ég ætla að fá dóttur mína til að breyta lykilorðinu og fá mér ekki það nýja fyrr en eftir 10. maí. Þá eru prófin búin, ritgerðarskrif líka. 

Engin ummæli: