28. febrúar 2013

Baudelaire

Nýjasta eftirlætið er löngu dauður drykkjumaður og fíkill sem lést úr sárasótt 1867.  Þetta var eiginlega ást við fyrstu sýn, þ.e. sýn á ljóðin, ekki dautt skáldið sem er sjálfsagt ekki annað en nöguð bein einhverstaðar í Frakklandi núna. Ekki það að mig hefur lengi langað í ekta hauskúpu í stofuskápinn í staðin fyrir plastkúpuna sem ég eignaðist fyrir mörgum árum, svo – ef ég rækist á höfuðskeljar Baudelaires er ekki ómögulegt að ég fylltist viðlíka hrifningu af þeim og af ljóðum hans.
Myndin er fengin að láni héðan

Þá, ó fagra mær! segðu möðkunum 
sem háma þig í sig með kossum, 
að ég hafi haldið lögun og himneskum kjarna
minnar rotandi ástar!

                            úr Hræi (Une charogne) eftir Baudelaire

Ég þurfti ekki að hugsa mig tvisvar um að henda blessuninni honum Gilgames aftur á bókasfnið og snúa mér að því að semja ritgerð um ögrun og óhefðbundið fegurðarskyn Baudelaires í staðinn. Já eða kannski ég skoði frekar módernismann og þó sérstaklega súrrealismann í ljóðum hans.
Skynsemin sagði mér reyndar að finna ritgerðarefni þar sem heimildir og ítarefni lægi í hrönnum á bókasöfnum landsins en mér er sjaldnast lagið að vera skynsöm í vali á verkefnum. 

2 ummæli:

ellan sagði...

jahá.... getur þú ekki kynnt mig almennilega fyrir honum við tækifæri?

Hafrún sagði...

Er hann ekki hér um bil aftast í Sýnisbókinni þinni eða var honum bara bætt inn 2011?