20. febrúar 2013

Helstu áhyggjuefni

Fólk notar gjarnan raddböndin til að gefa frá sér hljóð, þó eru ekki öll hljóð raddbandahljóð. Raddbönd geta sveiflast ansi ótt og títt á hverri sekúndu, tíðnin á þessum sveiflum er það sem er kallað grunntíðni radda. 
Mismunur á grunntíðni karl og kvennradda  ræðst auðsæinlega af  lengd og massa raddbanda, það vita flestir að karlar hafa stærra barkakýli en konur. Stærra barkakýli þýðir lengri raddbönd sem sveiflast hægar og það á við um öll bönd, líka böndin sem við notuðum í snúsnú í eldgamladaga (og eru vonandi notuð enn).  Sópransöngkona hefur þess vegna styttri og þynnri raddbönd sem sveiflast hraðar en löng og þykk raddbönd bassasöngvarans. Grunntínbi sópransins er sem sagt hærri en djúpraddaðs bassasöngvara.  


Formendatíðnin eiginlega byggð ofan á þessa grunntíðni (eða úr henni) og ég velti því fyrir mér hvernig hægt sé að útskýra það á mannamáli. Það er ekki það að ég þurfi að svara því á mannamáli í verkefnum eða á prófi, það vafðist bara ansi mikið fyrir Facebook vinum mínu að skilja þetta í gær. Mér er umhugað um vini mína og áætla að fræða þá um íslenskt mál og hljóð og hljóðkerfisfræði sem endurgjald fyrir auglýsingarnar sem þeir deila af  góðmennsku sinni með mér. 

Svo tók ég stafsetningarpróf um daginn og mér til mikillar skelfingar hefur stafsetningarkunnáttu minni hrakað verulega frá því um þrítugt. Þetta hefði kannski ekki átt að koma mér á óvart, svo oft þarf ég orðið að fletta upp á snöru.is til að fullvissa mig um stafsetningu algengra orða en ástandið er mun verra en ég hélt. 

Dafnis og Klói voru svo lesefnið fyrir bókmenntasögu dagsins í dag og enn hef ég ekki stjórn á taugaviðbrögðum mínum þegar ég sé einhverja bölvaða vitleysu í skáldskap. Sem er kannski ekkert til að skammast sín fyrir, snýst ekki hugræn bókmenntafræði einmitt um þessi líkamlegu viðbrögð okkar við skáldskapnum?

Jæja hvað um það, ég er svo tortryggin að ég trúi ekki að ær og huðnur  beiði mikið upp á vorin, það er á miðjum sauðburði, eins og er látið heita í þessari fornu hirðingja- og ástarsögu. Ég veit, ég veit, skáldskapur er bara skáldskapur en er það ekki markmið skálda að fá lesendur sína til að samþykkja þykjustuheiminn meðan á lestrinum stendur? 
Sjálfsagt var markhópur eða kjörlesandi Longosar ekki einhver sem þekkir gangmál áa og geita og ekki trúi ég öðru en fleiri lesendur en ég hafi brosað út í annað þegar höfundurinn dregur upp þetta yfirþyrmandi barnslega sakleysi þeirra Dafnisar og Klói. Aðalsöguhetjurnar eru aldir upp innan um dýr og ættu því að vita ýmislegt um viðhald tegundanna en þessi fáfræði þeirra á öllum sviðum ástarinnar er afskaplega ótrúverðug og brosleg. En svona eru tískustraumar í bókmenntum.      

Engin ummæli: