4. janúar 2013

Áramótaheit og önnur mál

Á gamlárskvöld 2012 strengdi ég áramótaheit, upphátt meira að segja. Ég ætla að koma hjólinu mínu í lag á árinu!

Einfalt og þægilegt ekki satt? Ja, það hljómar kannski þannig en reyndin er sú að hjólið stóð inni í stofu í tvo mánuði áður en ég kom því í verk að læra að rífa undan því hjólið og fara með það á hjólaverkstæði til að láta skipta um teina. Svo  reif ég  dekkið af til að gera við slönguna, fann ekkert gat á henni en hún lekur samt. Það kom í ljós þegar ég fór á bensínstöð og blés í dekkið. Ég á ekki einu sinni hjólapumpu (eða finn hana ekki).
Nú er hjólið/dekkið (mér finnst svolítið ankanalegt að tala um hjólið af hjólinu) aftur í bílnum hjá mér og bíður eftir að nágranni minn á hjólaverkstæðinu sé í vinnu á sama tíma og mér hentar að vera á ferðinni svo ég geti keypt af honum slöngu (og látið hann setja hana á réttan stað). Maður á að versla í heimabyggð svo ég fer helst ekki til Reykjavíkur til að láta gera við, ekki ótilneydd.

Af framansögðu má sjá að það gæti orðið snúið að standa við þetta áramótaheit mitt. 

Þessa fyrstu daga í janúar er svo bara þessi venjulegi hugsanahringur í gangi. Ég þarf að byrja að ganga meira og ég þarf að henda mér í hollara mataræði eftir jólasukkið. Þetta hefur ekkert með áramótaheit að gera, bara bjúg, bauga og þetta almenna slen sem fylgir skammdeginu, hreyfingarleysinu og óhollu mataræði undanfarnar vikur. 

Sumir safna fjöllum, ég er að hugsa um að safna fjörum (án þess að súpa á þeim) og kannski fáeinum fellum líka. Ætti ég að byrja á morgun? 
Við Lónakot á nýjársdag

1 ummæli:

ellan sagði...

ja eða sunnudag.....6831 ogctsie