Kross og tré hafa margvíslegar trúarlegar merkingar en þrátt fyrir það er þetta hvorki færsla um trúmál né tré, hvorki innflutningsbann á greni, kirkjuferðir leikskólabarna, antiskógrækt, eða borðvið. Það var bara heilsukrosstréð sem brást mér í fyrradag og ég mætti ekki í próf í gær.
Mér gengur bara illa að átta mig á því að ég get ekki setið við námsbækur sleitulítið 10 tíma á dag í marga daga. Það endar bara eins og það endar, sem sagt með langvarandi verkjakasti, heiladofa og máttleysi. Reyndar held ég að einhver af pestunum sem eru að ganga hafi rekið nefið í gættina líka.
Jólafríinu er þar með frestað fram í janúar, ég get ekki haldið upp á próflok á morgun og þarf að halda áfram að æfa mig í íslensku og nú með hóflegum setum. Ég æfi þá áfram orðflokkagreiningu, hlusta á framburð orða til að finna hvort hljóð eru fram- eða uppgómmælt, fráblásin eða aðblásin og skrifa það niður með viðeigandi táknum. Spái í germönsku hljóðfærsluna, formgerðarsinna og Chomsky. Þessi frestur gefur mér kannski líka tækifæri til að læra nokkur útlensk orð til að slá um mig með í prófi. Mér skilst það vera mikils metið að geta slett erlendum fræðihugtökum.
Reyndar er ég eftir þessa lestrartörn búin að lesa ýmislegt um íslenska málfræði sem ég hef aldrei barið augum áður, og ekki veitti af að sökkva sér í þann lærdóm. Það er nefnilega töluvert ólíkt að mæta í háskólanám með 20-40 ára gamla ryðgaða málfræðikunnáttu í farteskinu eða koma beint úr framhaldsskóla þar sem er verið að kenna hluti sem ekki voru til í kennslubókum í gaggó eða FAS. Horf og agnir! Ekki orð um það meir, það bíður heljarinnar vinnutörn.
Ég bakaði [ɛhplakʰœkʏ] í gærkvöldi og velti því nú fyrir mér hvort það sé líka fráblástur í lokhljóðum í samsettum orðum. Ég þarf að fletta því upp.
(merkilegt nokk þá skila hljóðritunartákning sér hér inn, ætti ég að skrifa allar færslur með þeim?)
1 ummæli:
Ó já komdu með eina hljóðritaða færslu!! Svo er það hljóðdvalarbreytingin, hún var ansi merkilegt finnst mér en kannski ekki á dagskrá hjá þér núna. Gangi þér vel í skólanum og eigðu góða aðventu það stutta sem er eftir af henni.
Skrifa ummæli