31. ágúst 2012

Lífið

Hvern einasta dag færir lífið okkur breytingar, stundum smáar stundum stórar, við tökum oftast ekki eftir þeim smæstu en segjum eftir stóru atburðina að ekkert verði eins og áður. 
Þessu skaut svona óforsvarendis upp í huga minn áðan þegar ég í þungum þönkum velti fyrir mér hve öflugt krabbameinið getur verið. Það er engin trygging fyrir nokkru hvað það varðar, meinvörpin skjótast upp hér og þar hjá fólki sem heldur og vonar að það sér komið yfir versta hjallann og geti farið að lifa eðlilegu lífi aftur. 
Kannski er best að taka það fram hér og nú að ég var ekki að greinast aftur enda ekki búin að fara í skoðun eftir að meðferð lauk en ég er komin á eftirlitslista og verð kölluð inn í rannsókna einhverntíma í haust. Ég var aftur á móti að lesa bloggið hennar Sigrúnar Þallar , konu sem ég hef gegnum árin séð svolítið til á netinu og seinna í Ljósinu. Sigrún er ákveðin í að fara jákvæð gegnum baráttuna og hún er kona sem ég vildi gjarnan taka mér til fyrirmyndar. 
Þegar ég greindist sjálf var gott að lesa það sem hún skrifaði um það sem hún var að ganga í gegn um og sjá hvernig hlutirnir gengu fyrir sig. Það eru svo ótal margt sem maður man ekki eftir að spyrja um en hún var dugleg að segja frá því hvað var gert og hvernig og mér fannst gott að vita hverju ég átti von á því jafnvel þó við værum ekki með sömu tegundina gekk meðferðin svipað fyrir sig og ég var henni óskaplega þakklát fyrir allar upplýsingarnar.  
Sigrún greindist aftur nokkrum mánuðum eftir að meðferð lauk og bloggar nú enn um lífið með krabbameini og baráttunni við það. Lesturinn vakti upp óþægilegar minningar um stera, óseðjandi hungur, ofát, ruglaðan heila sem ekki gerði sér grein fyrir hvort ég var búin að borða eða ekki og alls ekki hvað mikið, bragðleysið, hitaroðann og sviðann í andlitinu og ótrúlegt magnleysið sem fylgdi því að hætta á sterunum. Svo allt hitt. Hvernig lífið snerist eingöngu um hluti sem heilbrigðu fólki  finnast lítilvægir. Hvenær ganga þessar aukaverkanir yfir? Og hvað tekur nú aftur við af þeim? Hanga neglurnar á fram að næstu lyfjagjöf eða detta þær? Hvað stóðu aftur þessu óbærilegu beinverkir lengi yfir síðast? Og svo framvegis og svo framvegis. 
Svo þegar síðasta lyfjagjöfin af frumudrepandi lyfjum var búin fór ég að horfa á neglurnar á mér vaxa, neglur endurnýja sig á nokkrum vikum og ég trúði þvi að þegar þær vikur væru liðnar þyrfti ég ekki lengur að hafa áhyggjur af þeim. Það var vitleysa en það er reyndar ekki umræðuefnið hér heldur þessi áhugamál mín eins og það að horfa á neglurnar nærri því daglega, horfa eftir því hvað þær hafi vaxið mikið frá því í gær og hlakka til þegar þær hafa endurnýjað sig alveg. 
Gömul skólasystir mín, sem man ekkert eftir mér, úr gaggó tilkynnti mér eftir bekkjarmótið sem ég fór á í sumar að henni fyndist ég svo skemmtilega einlæg og hreinskilin að hún ætlað að „adda“ mér á facebook. Ég varð hugsi yfir þessari lýsingu á mér og velti því stundum fyrir mér hvort ég eigi að drífa mig í greiningu og láta leita að einverjum heilkennum en það er nú útúrdúr. 
Sjálfsagt olli þetta heilkenni því að þegar fólk spyr mig (eða spurði) hvernig gengi og hvernig mér liði svaraði ég því samviskusamlega og gerði grein fyrir öllum þeim kvillum sem voru að hrjá mig í það og það skiptið eða svona yfirleitt í meðferðinni. Ég held að enginn hafi haft áhuga á að fá hreinskilið svar við spurningunni. Núna segi ég bara allt gott en á þeim tíma hverfðist líf mitt um þessar aukaverkanir sem ég vissi að kæmi að aftur og aftur í þessari hringekju sem meðferðin var.   
Mig óar við því að stíga aftur upp í þessa hringekju en ég er mjög meðvituð um að á það á hættu að þurfa þess. Ég var með erfiða tegund krabbameins. 

Í dag bíð ég eftir að skólinn byrji aftur eftir gott sumar. Ég er þokkalega ánægð með sjálfa mig í dag þó ég sé ekki komin í það form að geta gengið eða hjólað Jakobsveginn (það er á planinu fyrir 2014) en ég þarf annað slagið að staldra við og minna mig á hvernig ástandið var fyrir einu ári. 
Á því herrans ári 2011 var ég í skálavörslu í Breiðuvík, ég fór tvisvar í göngtúr þessa viku sem ég var þar, í annað skiptið komst ég niður í fjöruna og heim aftur, í hitt skiptið gekk ég, að mig minnir í hálftíma og þótti gott. Í sumar var ég í skálavörslu í Múlaskála í Lónsöræfum og gekk upp og niður Illakamb, sem ber nafn með rentu, tvisvar eða var það þrisvar (minnið kemur því miður ekki hratt til baka) auk þess að ganga inn í Leiðartungur og upp á Stórhnaus. Ég fór ekki hratt yfir en ég komst það. 

Það gengur svona upp og niður í lífinu,
 oft ansi bratt. 
Í ágúst í fyrra byrjaði ég í Háskóla Íslands, fyrstu önnina var markmiðið (ekki með náminu, það er án markmiða) að geta gengið frá bílastæðinu við Norræna húsið upp í Árnastofnun án þess að hvíla mig á leiðinni. Svo færði ég mörkin að því að geta gengið upp stigann á aðra og þriðju hæð. Í sumar gekk ég í Stórurð og aftur til baka, samtals 15 km.. Ég var svo þreytt í síðustu brekkunum á bakaleiðinni að ég henti mér tvisvar niður í næsta mosabing, lá þar með tárin í augunum og taldi í mig kjark til að takast á við næstu hækkun. Þetta er mjög auðveld gönguleið. 
Þetta og svo ótal margt annað sýnir mér hvar ég var þá og hvar ég er í dag en þó ég greinist ekki aftur og þurfi kannski aldrei að stíga upp í hringekju lyfja og aukaverkana á ég enn talsvert langt í land og svo bætir blessuð gigtin svo sem ekki ástandið. Kannski kemur minnið til mín aftur á næstu tveimur árum, ég er samt ekki alveg sannfærð.
Fyrir ári var ég upptekin af þeim atriðum sem ég lýsti hér fyrir ofan, nöglunum, hvítu blóðkornunum, rauðu blóðkornunum, bjúgnum, verkjunum, þrekleysinu og öllu því, í dag er ég upptekin af því að langa í sjósund, hlakka til að takast á við fullt nám í HÍ, stressa mig yfir náms og vinnuálagi (nú er ég búin að eyða allt of löngum tima í bloggskrif) og hlakka til að þjálfa mig upp í að geta hjólað Jakobsveginn. 

Það er dramatískt að segja að ekkert verði eins og áður, það er fullt af hlutum sem eru lítið breyttir. Þær breytingar sem ég tek mest eftir svona dags daglega er myndin sem blasir við mér í speglinum þegar ég kem úr sturtu og hugsunin Það kemur ekki fyrir mig hefur breyst í Það gæti tekið sig upp aftur, hver ætli tölfræðin sé?






1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú átt eftir að ná upp mikið meira þreki en þegar þessi krabbaskrabbi poppaði upp og þjóta eftir jakobsveginum eins og vindurinn!

Svo er á meðan er, maður bara lifir í núinu, það gæti þessvegna lent loftsteinn á jörðinni á morgun!

e