Ég er búin að fara út að ganga með kennimyndum sagna og teikna kennimyndir nafnorða í hálft fiðrildi (eða 0,75 sinnum X eftir því hvernig á það er litið) það er merkilega líkt fiðrildalíkani Greimas, svona á blaði, og yfir morgunmatnum skrifaði ég á miða að hugtakið yfir innbyggðar einingar sem kerfisbundið koma í ljós í málkerfinu séu formdeildir. Útskýrði það svo nokkrum sinnum fyrir kettinum og það dugði mér til að muna skýringuna alveg þangað til núna.
Ég var heppin, ég þurfti að svara því í prófi hvað formdeildir merkir og auðvitað taka nokkur dæmi um beygingarformdeildir og svona hitt og þetta. Hluta af þvi mundi ég frá því í gær og í morgun, sumt vissi ég að ég átti að vita en mundi ekki en ég var heppin því allar spurningarnar sem ég hafði engin svör við komu ekki í þessu prófi. Ég treysti á að ég hafi haft 50 % af hverri spurningu rétt, prófinu sé náð svo ég henti öllum glósum í ruslið þegar ég koma heim (auðvitað á ég þær í tölvunni)
Þá er að snúa sér að varðveislu miðaldasagna og ekki verra að læra nokkur AM og GKS númer svona til að slá um sig með.
Esjan er á sínum stað og þangað stefni ég snemma í fyrramálið, svo snemma að ég deili göngustígnum bara með rjúpunum, sem stundum hafa flogið óþægilega nálægt nefinu á mér.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli