13. apríl 2012

Ég er ekki frá þvi að það sé gott fyrir sjálfsmatið að ganga upp eina og eina brekku. Á þriðjudaginn fór ég erindisleysu upp á Höfða og úr því ég var komin upp í sveit á annað borð hélt ég áfram upp að Mógilsá. Sólin skein og fuglarnir píptu og ég skakklappaðist upp í Esjuhlíðar. Alveg upp að skilti tvö sem er að vísu ekki nema í ca 140 metra hæð en þetta var afrek og sérstaklega af því ég fór ekki á tveimur jafnfljótum, heldur tveimur misfljótum. 
Hún virkar ekki tiltakanlega stór frá
þessu sjónarhorni. 
Hér sneri ég við í fyrstu ferð en fór örlítið 
lengara í gær
Ég held ótrauð áfram og reif mig upp klukkan sex bæði í gær og í dag til að endurtaka leikinn. Í dag gleymdi ég mér samt við að leggja nokkra steina á sinn stað með fram stígnum og raða upp öðrum til að hefta för þeirra sem vilja troða utan alfaraleiðar með tilheyrandi skemmdum á gróðri. Það var líka góð hreyfing. 

Kistufellið ylgdi brún móti himni 12. apríl
En 13. apríl hafði snjóinn tekið upp aftur
skýin og frostið hörfað og ég komst ekki
mikið lengra en þetta af því ég sá of marga 
steina sem ekki voru á sínum stað eftir 
veturinn.  
Morgunverkunum lauk svo í heitapottinum í Lágafellslauginni og með því að skutla sjúkraliðanum í vinnuna. Allt frágengið fyrir níu en núna kl. 10:30 er ég enn að njóta míns útblásna sjálfsálits i stað þess að sitja við ritgerðarsmíð. Á því verður gerð bragabót um leið og ég hef skoðað veðurspána því á morgun ætla ég að hvíla brekkurnar og fara í Búrfellsgjána. 







Engin ummæli: