4. október 2011

Póstur úr fortíðinni

Ég fékk tölvupóst um daginn og fyrirsögnin á honum var „Ganga á Lágafellið“. Ég hundsaði það að sjálfsögðu þegar ég sá frá hverjum það var. Ég mátti ekkert vera að því að ganga nema stuttan hring í kringum húsið og hafði heldur  ekki orku í meira. 


Svo tók ég mig til og opnaði póstinn minn og þegar ég hafði lesið það gat ég ekki annað en dáðst að mínu eigin hugmyndaflugi. (kannski fékk ég þó hugmyndina lánaða einhverstaðar) Pósturinn var frá sjálfri mér og hljóðaði svona (ég tek þó út ákveðnar persónulegar upplýsingar sem eiga ekki erindi á netið :o) : 

Ganga á Lágafellið

Ganga á Lágafellið og taka eina mynd. Sjá hvort ég er jafn feit, feitari eða hef lagt af á þessu ári. Athuga líka hvort ég er búin að koma mér í betra gönguform en ég er í núna. Sem er auðvitað ekki neitt enda ekki hreyft mig frá því í vor þegar ég var þó byrjuð að labba aðeins og paufaðist meira að segja upp á Helgafell í Hafnarfirði í vor. Síðan þá hefur leiðin legið niður á við nema vigtin sem hefur legið upp á við og núna 10.10.2010 er ég í xx kg.!!!



Þetta var bara allra skemmtilegasti póstur sem ég var búin að steingleyma að ég sendi mér og meðan ég las  þetta leiddi ég hugann að því hvað er gott að vita ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. (myndhvörf- nú er allur texti greindur jafnóðum)
Eftir að þetta var skrifað fór ég í átak og gekk bara vel. Ég gekk svo sem engn ósköp, byrjaði þó á því 1. janúar, en ég tók mig til og lagði helling af fram til loka desember. Fannst mér ganga ótrúlega vel og þyngdist ekkert um jólin eða í janúar þegar stressið var sem mest í skólanum. Í janúarlok eða var það í byrjuðum febrúar fann ég svo krabbameinshnút í brjóstinu og nú finnst mér ekki ótrúlegt að hann hafi átt sinn þátt í mergruninni. Ég hélt áfram að leggja af í nokkurn tíma eftir að búið var að fjarlægja hann. 

Ég hafði alltaf þá hugmynd að fólk í krabbameinsmeðferð væri grindhorað af því það þjáðist svo af lystarleysi og ógleði meðan á meðferðinni stæði. Nú hef ég komist að því að það eru ranghugmyndir. Flestir bæta á sig. Þar kemur til rugl á mataræð, steragjöf og hreyfingarleysi. Ég til dæmis vissi oft ekki hvernær ég var búin að borða nóg, heilinn gaf ekki frá sér nein boð um það og það var ekki fyrr en ég fann fyrir verkjum og vanlíðan í maganum sem ég áttaði mig á að nú væri ég komin yfir strikið. Svo hvarf bragðskynið á köflum. Ég hef svo oft sagt við mann sem kvartar undan því að finna ekki bragð af matnum að þá skipt nú sjálfsagt ekki miklu máli hvort hann borðar eða ekki. Svo framarlega sem hann sé þokkalega saddur. Ekki sé það bragðið sem hann þurfi að sækjast í. Núna komst ég að því að maður borðar meira, ég a.m.k., af því ég var alltaf að bíða eftir bragðinu sem ég veit að á að vera af matnum og hélt ósjálfrátt, eða vonaði að það kæmi með næsta bita. 

Afleiðingarnar af þessu krabbameinsbrölti eru því þær að ég er tveimur kílóum þyngri en ég var 10.10. 2010 og hef varla getað gengið upp stigann hjá mér (15 þrep,það er lágt til lofts í kjallaranum) síðustu mánuði. En ég er í endurvinnslu á sjálfri mér.

Ég labba daglega og hringinn í kringum Vífilstaðavatnið á laugardaginn og aftur í gær. Á laugardaginn var ég álíka þreytt eftri gönguna og ég var síðast þegar ég kláraði að ganga Leggjarbrjót (fyrir löngu síðan). Hringurinn var auðveldari í gær og ég ætla að halda áfram að rölta þetta svona einu sinni í viku til að fá samanburð. Annað slagið þarf ég svo að ganga hring í Elliðaárdalnum til að fá samanburði við sunnudagsgönguna mína. Og ég þarf að ganga á brattann í bókstaflegri merkingu til að bæta lungnastarfsemina og þrekið. 
Fljótlega langar mig að ganga niður að Lónakoti, það er uppáhalds staðurinn minn í nágrenninu. Það gerir fjaran og sjórinn býst ég við.

Nú stefni ég að því að ganga Lágafellið endilangt næsta mánudag, eða þar um bil, taka eina mynd og senda mér svo póst sem bersta mér í lok september á næsta ári.

Nú þegar ég er búin að leita árangurslaust að myndinni sem var tekin á Lágafellinu í fyrra eða eins og einni sem er tekin af Lónakotinu verð ég að viðurkenna að ég þarf að taka hraustlega til í myndunum mínum. Það er lítið gang í að eiga flott forrit til að skipuleggja og vinna myndir í ef maður notar ekki mögleikana. Ég þarf einfaldlega að setja lykilorð á hverja mynd til að hægt sé að fletta henni upp fyrirhfafnarlítið. 

2 ummæli:

elina sagði...

Mánudag?

Þriðjudagur myndi henta betur..

Hafrún sagði...

Það þarf ekki að vera nákvæmlega 10.10. Ef þú vilt „njóta“ göngunnar með mér förum við bara á þriðjudaginn.