23. ágúst 2011

Ykkur að segja

og  ég treysti því að þið látið það ekki fara mikið lengra, þá er ég í tómu tjóni. Eiginlega  bara heljarinna sulli. 

Ég þarf að stunda hand og fótsnyrtingu grimmt og ég er óhæf. Já, það er ekki oft sem ég viðurkenni að ég sé óhæf til einhverra verka og þá sko fokið í flest skjól. Öll skjól reyndar. Hvar eru vinirnir þegar á reynir, börnin, barnabörnini, æjá, ég á engin barnabörn en ef ég ætti eitt eða tvö á aldrinum 3 til 5 ára er ég nokkuð viss um að þau væru tilbúin að sinna þessu máli. Árangurinn og handbragið væri þó sennilega svipað og hjá mér. 

Mig langar ekkert í þennan snyrtistofu leik. Bera olíu á naglaböndin daglega, naglaherði þriðja hvern dag handáburður oft á dag (ef vel á að vera, en ég svíkst oft um sko) Þetta er ekki pjatt og ekki stefnuyfirlýsing að vera með svart naglalakk. Langt frá því. Samt er ég búin að lakka fingurneglurnar þrisvar í morgun með svörtu naglalakki. Klessa svo öðru yfir til að reyna að fela ósköpin. Horfa á þykkar klessurnar sem ná langt upp á hnúa, hugsa nei þetta gengur ekki, burt með þetta. Og byrja svo á öllu upp á nýtt. 

Sýnishorn af naglalakki heimilisins og
handbragði höfundar.
Svartur grunnur undir silfri, fölbleiku, og bleiku
í mismundndi þykkum klessum. 
Ég stóð um helgina á apótekinu og beið eftir að heyra nafnið mitt kalla upp. Tíminn leið og ég rölti um þangað til ég rakst á naglalakk í litlum umbúðum og verði var ekki nema 330 krónur. En hentungt hugsaði ég. Þetta er greinilega vel þekjandi lakk og fínt yfir það svarta. Þá sést það ekki. 

Svo fór ég að velta vöngum yfir litaúrvalinu, ætlaði að finna eitthvað lítið áberandi sem hæfði vel miðaldra konu með neglur sem líta út fyrir að vera nagaðar upp í kviku. Kannski væri nú samt bara gaman að kaupa líka eitt blátt með glimmer, hugsaði ég, nú eða silfurlitt. Þetta er svo ódýrt að ég get keypt eitt auka bara til að leika mér að. 

Þá var nafnið mitt kallað upp, ég snarsneri mér frá hillunni enn með silfurlitt naglalakk í höndunum og þusti að kassanum. Maður getur nú ekki verið að láta bíða eftir sér!

Já, það verður að segjast að silfurlita lakkið hylur vel, bæði svarta lakkið, naglaböndin og alla húði í kringum táneglurnar. Mér er alveg sama um það, ég er að fara í sokka. Það gekk verr með fingurneglurnar, ég ætla og ekki að ganga með vettlinga núna. Ekki einu sinni hanska. Ég á samt leðurhanska og gamaldags svarta hanska eins og hún mamma gekk stundum með þegar ég var lítil.

 Nú er ég búin að prófa allt hitt naglalakkið sem ég fann á heimilinu og hef svo sem notað áður með misgóðum árangri en af einhverjum ástæðum endar þetta allt í þykkum klessum og kúlum út um allt. Neglurnar eru að vísu farnar að verða upphleyptar og bólóttar (það er undir þeim og þess vegna ekki hægt að pússa það niður) en ég held að það eitt skýri ekki þennan skelfilega árangur. 

Nú, eftir að hafa lakkað þrisvar með svörtu og hreinsað jafn oft af eru naglaböndin svört og sorgarrendur undir nöglunum. Ég er samt ekkert að gefast upp. Svart skal það vera! Af einhverjum ástæðum verndar svarta lakkið meira en annað lakk sagði hjúkkan mín í vor og ég rengi hana ekki. Hún veit og kann miklu meira um afleiðingar krabbameinslyfja en ég. 

Ég ætla ekki að fara að missa neglurnar þessar síðustu vikur svo nú er bara að fara á apótekið og kaupa nýtt lakk sem ekki klessist. Ekki blátt með glimmer og ekkert meira spúkí. 

Mér finnst nú samt í aðra röndina gaman að vera með tær eins og tinkall. 


Gangið á Óðins vegum í dag lömbin mín. 

4 ummæli:

elina sagði...

jahá..... ég hefði nú getað hjólað til þín og lakkað á þér neglurnar áður en ég hjólaði heim.
Ég las þetta bara ekki fyrr en ég var komin heim og ekki nenni ég að leggja af stað til þín núna, hjólandi, til þess að eiga eftir að hjóla aftur heim á eftir.

Mér þykir samt óttalega mikið vænt um þig.

Hafrún sagði...

Sko, þetta er engin afsökun! Eins og þú sérð ef þú lest færsluna aftur þarf á ég að gera þetta þriðja hvern dag og þú ert velkomin í kaffi á föstudag. :þ

Hafrún sagði...

Já, takk annars og sömuleiðis.

Nafnlaus sagði...
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.