10. ágúst 2011

Vottorð

Ég fékk vottorð í gær, útbjó það sjálf meira að segja. Samkvæmt því hef ég leyfi til að vorkenna sjálfri mér heilan helling þegar ég er svo slæm í lungunum að ég anda eins og mæðiveik rolla. Ég mæddist við að horfa á sjónvarpið og þegar ég staulaðist á þverskunni einni saman upp stigann í gærkvöld þurfti ég að leggjast á næsta sléttan flöt og blása. Nei annars, til að reyna að gleypa í mig loft.  Mér fannst ég eiga frekar bágt skal ég segja ykkur.

Í dag er heilsan betri, ég get hreyft mig án þess að óska þess heitt og innilega að ég hafa aðgang að súrefniskút. Þessu hefur fylgt hitavella sem er held ég að lagast og kannski er ég bara kvefuð, án þess að vera „kvefuð“.

Sem betur fer var ég ekki svona slæm í allan gærdag og gat gert helling af því sem ég átti að vera búin að og það er ótrúlega gott að hafa ekki samviskubit yfir því lengur.

Ég ætla nú samt að koma mér upp samviskubiti yfir einhverju öðru fljótlega. Fyrst þarf ég samt að skreppa í eina lyfjagjöf og finna mér svo eitthvað skemmtilegra til að tala um en eilíf veikindi.

Engin ummæli: