7. ágúst 2011

Veðurfreistingar

Veðrið er búið að freista mín þessa helgina og ég kollféll fyrir freistingunni. Ég var svo ánægði með heilsufarið á laugardag að ég hringdi í vinkonu og spurði hana hvort hún þyrfti ekki að taka stöðu á vexti ætisveppa. Hún var svo sem til í það og með viðkomi á markaði í Mosfellsdal fórum við og könnuðum sveppagróður í Heiðmörkinni.
Það var frekar fátæklegt um að litast þar, bæði á berjalyngi og svepparótum. Veðríð var ljúft og mér tókst að ofreyna mig. Það kom berlega í ljós seinnipartinn í nótt og í morgun. Rjátlaðist samt af mér þegar leið á daginn.
Sjálfsagt spilaði eitthvað inn í að vinkonan og maðurinn hennar buðu í mat í gærkvöld og það var sitið langt fram eftir kvöldi við gott spjall.

Í dag safnaði ég kröftum með því að lesa Horfðu á mig eftir Yrsu Sigurðar –ég er í vandræðum með að muna nöfnin á þessum bókum– og það var ekki fyrr en á síustu 10 blaðsíðunum sem ég áttaði mig á því að garðstóll og sólskin væri góður kostur við bóklestur. Mér finnst hefði að ósekju mátt skera 50 blaðsíður af ýmsum umhverfislýsingum úr sögunni.

Daginn endað ég svo með því að sitja lengi á góðu spjalli með enn einni vinkonunni, hér heima og í Grasagarðinum. Það er gott að eiga fjölbreytta flóru vina sem ýmist deila með manni blóma-, sveppa- eða bókaáhuga í misríku mæli.

Á morgun er spá heiðríkju og 14° hita og eins og venjulega hugsar maður með sér, það er óvíst að það verði fleiri svona dagar í sumar, verður maður ekki að njóta þess.


Mig bráðvantar lerkiskóg til að tína sveppi í ég man bara ekki eftir nokkru svoleiðis hér í kring. Allar upplýsingar eru vel þegnar.

Engin ummæli: