3. ágúst 2011

Lífið er

yndislegt söng popparinn í útvarpin áðan. Ég var á heimleið eftir að hafa náð í lánsbílinn og ákvað að taka undir hluta af þessu sykurpoppi og að hann ætti við veðrið og sólsetrið í kvöld.

Þar sem yndislegheitin voru nú ákveðin og fastsett ákvað ég að fara út að labba þvert á allar fyrri yfirlýsingar sem ég var að undirbúa netopinberun á. Þær áttu að hljóða eitthvað á þessa leið „Ekki koma í heimsók, ekki hringja, ekki reyna að tala við mig! Ég er ekki fær um að elda, hvað sem öllum framkvæmdaáætlunum liður og ég kemst ekki út að ganga. Ekki einu sinni upp stigann.“ (eiga gæsalappirnar að vera á undan eða eftir punktinum? Æ, skítt með það, ég nenni ekki að fletta því upp núna). En svo lagðist ég í sófann smá stund og það dugði til að aðeins bráði af mér og ég treysti mér til að sækja bílinn og á endanum labbaði ég hringinn minn og það meira að segja án þess að setjast á bekk.

Nings sá reyndar um kvöldmatinn og það hefur ekkert grænmeti verði borðað í dag. Við endurskoðum þau mál á morgun ég og annar hvor kötturinn.

Það var voða ljúft að anda að sér góða veðrinu, mæðin var ekki eins ljúf og áreynslan við hreyfinguna spillti mikið til ánægjnni af sumarkvöldfegurðinni. Þetta var þó alveg þess virði. Meira að segja eftir að heim kom og ég ætlaði að setjast niður og horfa á sænskan glæpaþátt í Plúsnum á myndlykli Vodafon. Ég tel mig vera frekar tæknilega sinnaða nema þegar kemur að myndlyklum og sjónvarpi. Ef ég finnst einhvern daginn með hjartaáfall, brotið sjónvarp og myndlykil í molum hef ég loksins misst stjórn á skapi mínu við fyrrgreind tæki.

Ég var búin að hlakka til að horfa á Kommissarie Winter, ekki endilega vegna þess að sagan væri góð eða spennandi, heldur vegna þess að ég hef spáð mikið í myndatöku, lýsingu og klippingu þáttanna. Mér finnast skemmtilegar pælingar í þessum þáttum, meira svona en í öðrum glæpamyndum í sjónvarpi. Og þó – nei annars þessar pælingar verða að bíða betri tíma. Ég náði að koma sjónvarpinu í það horf að ég sá síðustu 5 mínúturnar af þættinu og ætli ég verði ekki að láta það duga og í stað þess að pirra mig meira ákvað ég að blogga um yndislegt veður og dugnaðinn í sjálfri mér. Þá hringdi dyrabjallan! Klukkan 23:45! 

Það geta fylgt því ýmis vandkvæði fyrir kjagandi, fáklæddar, bjúgþemdar og  hárlausar konur að rjúka undirbúningslaust til dyra í myrkrinu. Það þarf ýmislegt að laga áður en maður opnar og ég verð að viðurkenna að nú langar mig til að ná mér niðri á einhverjum. Ég veit bara ekki hverjum. Kötturinn er allavega kominn inn um aðaldyrnar, einhver hugulsamur nágranni vilaði ekki fyrir sér að hringja dyrabjöllu fyrir hann rétt fyrir miðnætti í íbúð sem varla sást ljóstýra í. Einhver vorkennir kettinum svo mikið að vera úti í hlýrri sumarnótt –hann á reyndar einkainngang sem honum hentar ekki alltaf að nota– að hann hikar við að vekja gamlar veikar kerlingar. Ég meina, það var ekkert sem benti til annars en ég væri í fasta svefni.
 

Jamm, ég pirrast auðveldlega þegar ég þarf að tína til allt sem hæfir því að opna útidyr fyrir ókunnugum á ókristilegum tíma. Svo var viðkomandi farinn svo ég gat ekki einu sinni sett upp ljótan svip nema fyrir köttin og honum er alveg sama.

Ég dáðist að því í morgun hvað bjúgurinn hefði nú minnkað á mér og ég liti stórum betur út. Í kvöld strekkist á hverri húðfrumu. Tannholdið eins og opið sár, það gusast reglulega fram úr nefinu á mér en bráðum þornar slímhúðin þar og þá myndast hrúður. Neglurnar eru aumar, náladofi í fingurgómum og iljum og ég finn bragð af sykri í öllum mat. Mig langar í fleiri bragðtegundir. 

Á morgun ætla ég til tannlæknis, lyfin hafa farið með það sem var eftir af tönnum (tannholdi) og meira að segja eytt svo bráðabirgða reddingum að tungan á mér lýsir yfir neyðarástandi og neitar að hreyfa sig. Sogæðameðferð þar á eftir. Svo tekur við Herpsetín lyfjagjöf sem þýðir að ég sef ekkert næstu nótt en ég hef þá eitthvað skemmtilegt að hugsa um þar sem Uzbekistanfundur er síðastur á dagskránni á morgun. Ég fæ afhent ferðagögn (eins gott að týna þeim ekki) og á Uzbek telur maður bir, ikki, uch, to´rt, besh, olti, yetti, sakkiz, to´qqiz, o´n (1-10). Ég er að hugsa um að læra þetta fyrir 9. sept. Ekki samt í kýrílsku letri það var lagt af á svæðinu 2007.

Já, yndisleg heitin breytast stundum í nöldur en ég sit nú líka með drög að stundaskrá HÍ fyrir framan mig og það er hellingur að hlakka til á næstunni. 

Engin ábyrgð er tekin á innsláttarvillum. Þær skifast á ónýt og týnd gleraugu. (líka stafsetningarvillur).

Engin ummæli: