5. ágúst 2011

Blóðbragð

Rauðu blóðkornin myndast í beinmerg og líftími þeirra er um 120 dagar segir á vef LHÍ. Rauðu blóðkornunum mínum hefur fækkað undanfarið og einkenni þess gera vart við sig. Ég er lafmóð af því að sitja kyrr, verkjar neðst í hálsinn og neðan við viðbeinin með blóðbragð í munninum. Mér finnst það ekki gott en það er nú svo margt sem er ekki gott. Þetta lagast vonandi eftir helgina. Dagarnir hafa verið svo lengi að líða að mér finnst alltaf vera meira en vika frá síðustu Texotergjöfinni. Skil þess vegna ekkert í hvað ég næ mér hægt upp.

 Það er gott að eiga góða að og það í sumarfríi. Vinkona kom og færði  mér bókapakka, fór með mig á Kaffi Flóru og gaf mér fiskisúpu.  Dagurinn var fljótari að líða en margir aðrir. Á morgun er sogæðanudd og kaffi á Kjarvalstöðum með annari vinkonu og síminn hringdi í dag þegar sú þriðja var að hugsa um að droppa við. Hana fæ ég að eiga inni. Það er gott að dreifa afþreyingunni aðeins.

Ég er samt samskiptafötluð núna, svimi og heiladoði þjaka mig svo ég veit aldrei hvort ég er að tala í rökréttu samhengi og stundum man ég ekki hvað var sagt og hvað ég ætlaði bara að segja.

Sjónin er ekkert til að hrópa húrra fyrir og gleraugun bæði léleg og óhrein –sjálfsskaparvíti ég veit– og þegar kattarafmánin kemur inn með eitthvað svart, langt og mjótt hangandi niður úr munnvikunu kippi ég að mér fótunum. Bið hann svo blessaðann að koma sér út aftur. Bíð lengi eftir að eftir að músin detti út úr honum meðan hann röltir kringum ming. Kötturinn aftur á móti hneykslast á móttökunum, mjálmar og reynir að losna við grasstráið sem situr fast í tönnunum.

Samviskubitið stjórnar gerðum mínum þegar ég leyfi honum að hreiðra um sig á skrifborðinu og leggja vangann á lyklaborðið.

Engin ummæli: