í dag er eiginlega fyrsti dagurinn frá 15. júní sem ég finnn ekkert fyrir lyfjaáhrifum í líkamanum. Þá á ég auðvitað ekki við að ég finni ekki fyrir afleiðingum lyfja heldur að náladofinn og dofinn eru horfin, hugsunin orðin þokkalega heiðskýr og mistur og móða horfin af flestum hugsunum. Sjónin hefur lagast og rökhugsun orðin þokkaleg. Ég get hugsað í heilum setningum, jafnvel efnisgreinum.
Að vísu bregður fyrir svima og þoku annað slagið en ég held að það sé blóðþrýstingurinn sem er enn á einhverju flökti. Eftir því sem rigningarskýin yfir Víkinn þykkna, sortna og ausa sí'ðan úr sér vætunni styttir upp hjá mér.
Stuttur, eins og hálftíma göngutúr niður á sandinn, berfætt yfir móann ána og sandinn er ljúfur og ljúft að vera orðinn sjálfum sér líkur.
Kamínan í skálanum kallar á viðveri í stóra húsinu frekar en hangs í því litla, jafnvel þó það sé rúmbesti skálavarðarbústaðuirnn af þessum þremur í Víkunum.
Veisla kvöldsins felst í hnausþykkum hamborgurum (brauðin gleymdust enda þarf þau ekki með þessum). kamínubökuðum sætum kartöflum og sveppum. Salati, hvítmygluosti og rauðvínskönnu. Hér er lítið pjatt og kaffikrúsirnar duga hvaða drykki sem er.
Við borðum eins og Hobbitar, lífið snýst um slökun, eldamennsku, slökun og át og við njótum hvers munnbita af matnum. Slæpumst svo, skrifum, lesum, prjónum og borðum eina ferðina enn.
Svona til að halda þrifvöðvunum í léttri æfingu þrífum við þó salerni og skálaglugga og nú er allt tilbúið fyrir hópana sem koma eftir helgina.
Það fer að rigna undir kvöldið og eldurinn í stónni, rigningin á rúðunum og vindgnauðiði í strompinum virka alls ekki illa á sálina.
Svolítið vorkenni ég nú samt öðru lambinu hennar Kollu, það skýtur upp kryppu annað slagið en ég veit að í þessu landslagi á fé auðvelt með að finna skjól fyrir láréttri rigningunni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli