Ég er eins og línubelgur, kjagandi á tveimur fótum og vil helst ekki líta í spegilinn því kinnarnar eru eins og á skrípamynd af karlinum í tunglinu. Sterar eru ekkert spaug en það eru aukaverkanir af krabbameinslyfjunum ekki heldur. Sennilega væri ekki skárra að fá ofnæmiskast í lyfjagöf.
Doksi var með eitthvað múður þegar ég mætti til hennar á miðvikudaginn, ég á að stefna að því að minnka að ummáli. Fara í sogæðameðferð og huga að hreyfingu og mataræði. Engin miskun og þó ég kvartaði undan skorti á hreyfigetu, þar sem lungun mótmæla harðlega lélegri stöðu á rauðum blóðkornum, var mér sagt að leggja þá bara meira á mig. Ég er ekki farn út að labba, kannski ég bæti úr því í dag.
Sjónin daprast þegar líður á vikurnar, hún var rétt að komast í samt lag á miðvTikudaginn og þá byrjaði nýr hringur. Núna verð ég vonandi fljótari að jafna mig á þessu öllu því Texoterið var minnkað um 20%. „Þessar tvær síðustu lyfjagjafir eru ekki eins mikilvægar og þær fyrri“ sagði konan og ég varð voða glöð með það allt saman og vonandi næ ég að drekka nógan rauðrófusafa til að sleppa við blóðgjöf.
Ég hefði þurft að skreppa í búð í dag og kaupa netlute og rauðrófusafa en ég er bíllaus og orkulaus, með verki í fótum og svaf ekki fyrir ógleði í nótt. Kannski ég taki á honum stóra mínum, spari pirringinn við fólk sem ekki heyrir í mér þegar ég muldra í símann (það dregur verulega niður í mér í þessu ástandi) og biðji Kennarann um að hjálpa mér að finna opna verslun í dag.
Þrátt fyrir allt þetta auma ástand tókst mér að orkera eins og einn eyrnalokk í gær til viðbótar við þá sem ég framleiddi um daginn. Þessir tvennir sem eru á myndinni fóru í sölu fyrir austan, það á eftir að koma í ljós hvort þeir seljast. Tíma mínum er svo sannarlega betur varið við handavinnu en tölvuleiki en það er bara miklu einfaldara að setjast við tölvuna.
Þambara vambara
Þambara vambara þeysingssprettir,
því eru hér svo margir kettir?
Agara gagara yndisgrænum,
illt er að hafa þá marga á bænum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli