31. júlí 2011

Afrek dagsins

Ég tók sjálfri mér tak í dag og fór út að ganga. Auðvitað var ákveðinn hvati að þessu annar en fyrirmæli læknis. Ég fékk nefnilega Kennarann til að skutla mér á apótek og í búð og uppgötvaði við það að veðrið var skínandi gott. Það hafði létt til og hitinn var greinilega yfir 15 gráðunum, þá vildi ég koma mér út undir bert loft og það tókst.

Ég var beðin um að fara ekki langt –eins og ég væri nú fær um það– það er nokkuð greinilegt að sumir hafa ekki trú á getu minni til að vera lengi á fótum þessa dagana. Ég labbað nú samt þennan litla hring sem ég hef haft sem lágmarks viðmið undanfarin ár. Ég hef gefið það upp að hann sé 15 til 20 mínútna ferð eftir veðri og færð en með góðum stoppum á þessum tveimur bekkjum sem eru við göngustíginn er ég hrædd um að við séum allavega að tala um 40 mínútna göngutúr í dag. Svo var auðvitað skerfalengdin ekki bara mæld í hænuskrefum heldur í hænuungaskrefum.

 Ég er nú nokkuð stolt af mér samt og ætla aftur á morgun. Yfirlýsingar um framkvæmdir setja á mann pressu, þess vegna keypti ég mér líka framkvæmdadagbók!  Mér finnst svo gaman að skipuleggja mig, verst hvað það er leiðinlegt að fara eftir skipulaginu.

Annars hefur dagurinn liðið við hljóðbókahlustun og svefn. Ég er að reyna að hlusta á Þegar kóngur kom en gegnur það frekar illa. Þarna gerist voða lítið sem hægt er að hlusta á, latínuslettur og gamaldags orð eru ekki að gera sig í upplestri, ég þyrfti að geta flett og hraðlesið.

Í kvöld plataði ég svo Kennarann til að bjóða mér á Kaffi Flóru og í smá bíltúr og enn langar mig bara til að vera úti í sumarveðrinu. Hlý sumarkvöld þegar farið er að skyggja eru eitthvað svo freistandi og gróður ilmurinn liggur yfir öllu  þessa stundina.

Á morgun þarf ég að hreinsa upp af To do listanum sem ég var að rifja upp hvernig á að nota í Outlook Það kemst fleira á hann en í dagbókina.

Þessi er eitthvað svo við hæfi á svona
sumarkvöldum. 

Engin ummæli: