13. júní 2011

Frá Suð-Austurlandi til Kópavogs

Það var nú ekki alltaf rok og kuldi þarna fyrir austan
Ég er mætt í Kópavoginn aftur. Mér liggur við að segja því miður en verð nú samt að viðurkenna að það er ágætt að vera komin heim. Hafa alla mína hluti á sínum stað, jafnvel þó staðurinn sé ekki rúmgóður.

Það var hlýtt í Kópavoginum þegar ég kom og ég fékk mér göngutúr. Andaði að mér lyktinni af gróðrinum og grillunum.

Meðan ég gekk hringinn minn, í fyrsta skipti í margar vikur, hugsaði ég um barnabók sem var til heima hjá mér þegar ég var krakki. Í henni var saga af svínahirði sem átti svo flottan pott að úr honum mátti finna lyktina af öllum þeim mat sem var eldaður í borgini. Auðvitað kom prinsessa líka við sögu, já og hirðmeyjar, og allar voru þær svo forvitnar að þær létu svínahirðinn plata sig upp úr skónum. Allt til að geta forvitnast um hvað var í matinn á hverju heimili í borginni.

Mér leið svolítið eins og ég hefði svona pott til umráða þegar ég gekk eftir götunni minni áðan.

Það er annasöm vika framundan og ég þarf akstur til og frá Landspítala á miðvikudaginn.

2 ummæli:

elina sagði...

Bíddu... þessi flotti og fíni bíll sem þú átt. Ég get keyrt hann fyrir þig á miðvikudaginn fram og til baka hvert sem þú vilt !!!!

Hafrún sagði...

Fínt, ég á að mæta 11:40 og guð má vita hvenær ég verð laus en ég læt þig vita í tíma.