Hljómburðurinn frábær og rauði salurinn glæsilegur. Ég sat í hliðarstúku þar sem er bara ein sætaröð og það kom sér. Ég gat hangið með hökuna á handriðinu, látið stólinn rugga sitt af hvað eins og mér sýndist og það hefði ég sko ekki getað gert í salnum. Ég mæli alveg með þessum sætum. Ekki misskilja mig! Ég var ekki að rugga mér í takt við músíkina, borin af bylgjum söngsins fram af handriðinu. Mig verkjaði bara svo hroðalega í bakið að ég gat engan veginn verið. Þessar stólasveiflur mínar urðu þá til þess að ég gat verulega slakað á milli verkjakasta og látið hljómana af sviðinu enduróma milli eyrnanna á mér, undir höfuðkúpuna og fram í augnalok .
Helgi syngur vel, Ragnheiður stendur alltaf fyrir sínu en færeyska dívan okkar toppar þetta alveg. Það er bara mín skoðun, þið þurfið ekki að deila henni með mér en ef ekki haldið því bara fyrir ykkur.
Brennið þið vitar lagði af stað í loftið um leið og brunaboðinn í húsinu. Ég rótaði mér ekki, „Er þetta ekki partur af prógramminu, Jú ábyggilega en ekkert sérstaklega góður brandari“ En nei þetta var ekki í dagskránni svo ég fór fyrir rest í snemmbúið hlé eins og aðrir. Ég tók nú samt lyftuna niður, hún var komin í gang aftur þegar ég stóð loksins upp.
Þetta voru fínustu 17.júní tónleikar, uppselt, allir ánægðir, dagskráin svolítið skrítin að mínu mati. Tilviljunarkennd en ekkert sem ég nenni að spá í svona eftir á.
Ég ætla bráðum í Hörpuna aftur, bara til að hlusta á eitthvað, hvað sem er!
18. júní – Og ég vakna með verkjum. Og þá meina ég verkjum. Þessir eru komnir til að leggja undir sig vöðva, bein og liðamót frá mitti fram á ristar. Þeir hverfa ekki hvernig sem látið er við þá. Byltur, snúningsstöður, legur, hreyfing, stjákl, þeir haggast ekki hið minnsta. Helsta leiðin til að plata þá er að trúa því sem mér var einhverntíma sagt, að heilinn hefði ekki tök á að fylgjast með margvíslegum sársaukaboðum eða áreiti í einu. Þess vegna reyni ég að dreyfa athygli hans. Smá ganga (ef ökklarnir þola það9 smá seta við tölvuna, stuttur bíltúr til ættingja og vina og þar má standa, ganga og sitja á víxl. Reyna svo að sofna og vona að hann hafi flutt út í nótt, helvískur. Svo velti ég því endalaust fyrir mér hvort það er vikulega eða þriggjavikna lyfjagjöfin sem bauð verkjahöfðingjanum í heimsókn.
Viku seinna fæ ég að vita að það sé 99% öruggt að svona verði ég bara á þriggja vikna fresti.Það var léttir.
Var þetta langt mál um verki? Svona smá, nú hætti ég því.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli