Það er nauðsynlegt að skrifa. Á þessum síðustu og verstu hefur samt lítið farið fyrir því. Ég hef ekki skrifað um skólaútskrift, breyttar lyfjagjafir, breyttar verkanir, veður, dagleg mál eða vonir og væntingar.
Ég býst við að þessar rithömlur og áhugaleysi sýni best hvernig ástandið hefur verið en núna, já núna, stödd í svefnpokaplássi á stóru farfuglaheimili á öskudreifingarsvæði Grímsfjallagoss langar mig til að taka upp blað og penna og setja orð á blað. Orð á blaði eru alveg að gera sig en þaðan þurfa þau helst að rata í tölvuna.
Ég útskrifaðist af Háskólabrú Keilis 16. júní síðastliðinn. Mér fannst það ekkert voðalega stórt skref meðan ég beið eftir athöfninni. Hafði nú samt fyrir því að finna hæfilega fínan klæðnað og æða í nokkrar búðir til að spá og spekúlera. Ég komst að því á hlaupunum að mig vantaði nýjar göngubuxur.
Stór skammtur af sterum fyrir lyfjagjafir, núna síðast alveg extra stór, gerir manni ekki gott. Sem betur fer var veðrið þessa daga fádæma gott stóru roðahellurnar í andlitinu á mér gátu alveg eins verið eftir óvarlega útiveru.
Ég komst sko að því þegar ég mætti á LHS 15. júní að nú þyrfti ég að koma líka daginn eftir, Texatere og Herpsetín eru nefnilega aldrei gefin bæði í einu í fyrsta skipti. Lyfin eru bæði ofnæmisvaldandi og það þarf að sjá hvernig maður bregst við hvoru fyrir sig.
Þannig að ég fékk Texotere 15. júní. Stera á undan, á meðan og eftir að lyfjagjöf lauk og þeir skammtar hafa áhrif sem ég satt best að segja vil vera laus við að muna of nákvæmlega. En, ja þeir héldu mér allavega gangandi næstu tvo daga eða svo. Svo helltust verkirnir yfir.
Til að halda útskriftardaginn hátíðlegan bauð ég fólkinu mínu –hluta af því– út að borða á 19. hæð. Það var gott, ég var kannski ekki upp á mitt besta en 17. júní var ég svo búin að kaupa mér miða á tónleika í Hörpunni. Mig langaði virkilega til að sitja í þessum fallega sal, Eldborg og hlusta á eitthvað. finna þennan frábæra hljómburð sem allir láta svo mikið með.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli